Neytendur

Jólabækurnar nær alltaf ódýrastar í Bónus

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mikill munur er á verði á bókum eftir verslunum.
Mikill munur er á verði á bókum eftir verslunum. Vísir/Vilhelm

Bækur sem seldar eru í Bónus eru ódýrastar í 95 prósent tilfella samkvæmt úttekt verðlagseftirlits ASÍ 3. desember síðastliðinn. Í tilkynningu kemur fram að litlu muni á verði Bónus og Nettó, en Bónus hafi verið ódýrara í 117 af 120 samanburðum milli þeirra tveggja.

Langoftast munaði minna en tíu krónum, en í fjórum tilfellum meira en þúsund krónum.

Í tilkynningu er tekið dæmi um bókina Jólakötinn. Hún hafi verið í boði hjá Bóksölu stúdenta á 1.090 krónur, en hún hafi kostað rúmlega þrefalt meira í Bónus (3.559kr) og rúmlega fjórfalt meira í Eymundsson (4.999kr). Það hafi þó verið undantekning því Bóksalan sé að meðaltali 26 prósent dýrari en Bónus. Nettó var að meðaltali 0,7 prósent dýrara, Hagkaup 23 prósent, Forlagið 30 prósent og Eymundsson 37 prósent.

Dýrastar í Eymundsson

Í krónum þýðir þetta að meðalbók sem kostar 4.000 krónur í Bónus kostar 28 krónum meira í Nettó, 920 krónum meira í Hagkaup, 1.040 krónum meira í Bóksölu Stúdenta, 1.200 krónum meira í Forlaginu og 1.480 krónum meira í Eymundsson.

Alls var 431 bók í samanburðinum, en valdar voru bækur sem finna mátti í minnst fjórum verslunum. Í tilkynningu segir að úrval bóka sé mun meira hjá sérvöruverslununum en í lágvöruverðsverslunum og að ekki sé lagt mat á þjónustustig í könnunum verðlagseftirlitsins.

Í tilkynningu ASÍ segir að eins og í fyrra geti verið dagamunur á verði, oftast muni nokkrum krónum en stundum ekki. Til dæmis hafi Útkall – ég er á lífi lækkað um tæpar 500 krónu, eða 8 prósent, í Bónus milli 1. og 3. desember. Dýrin undir ljósadýrðinni hafi hins vegar hækkað um 1.200 krónur, eða 35 prósent, milli 20. nóvember og 1. desember.

Allt að 74% verðmunur á barnabókum

Þegar skoðaðar eru barnabækur úr Bókatíðindum ársins sést að verðmunurinn er nokkru skarpari. Eymundsson er með dýrustu barnabækurnar, að meðaltali um 41 prósent dýrari en þar sem þær eru ódýrastar, sem er iðulega í Bónus.

Bóksala stúdenta er í þessum flokki ódýrari en Hagkaup í 23 af 33 tilfellum. Að meðaltali munar um 7 prósentum, eða 300 krónum, á verslununum tveimur, samkvæmt verðlagseftirlitinu.

Breiðast var verðbilið meðal barnabóka á Hetjurnar á HM 2026, sem kostaði 3.449 krónu í Bónus. Annars staðar kostaði hún:

•3.458kr í Nettó (0,3% dýrari)

•4.990kr í Forlaginu (45% dýrari)

•4.995kr í Bóksölu stúdenta (45% dýrari)

•5.299kr í Hagkaup (54% dýrari)

•5.999kr í Eymundsson (74% dýrari)

Bókin Liverpool - Nýr þjálfari, nýtt lið, nýir sigrar! hafði næstbreiðasta verðbilið. Hún kostaði það sama og Hetjurnar á HM 2026 í öllum verslunum nema Bónus, þar sem hún var sex krónum dýrari (3.455kr).

Í samanburði á barnabókum voru skoðaðar þær 35 bækur sem voru merktar í Bókatíðindum sem barnabækur og sem fundust í minnst fjórum verslunum.


Tengdar fréttir

Ræðst í úttekt á bókamarkaðnum

Logi Már Einarsson menningar-, nýsköpunar, og háskólaráðherra, ætlar að láta gera sérstaka úttekt á íslenska bókamarkaðnum og vinna að nýrri bókmenntastefnu. Hann segir að styðja þurfi vel við bókaútgáfu sem lið í að styrkja stöðu íslenskunnar.

Segir „Arnaldarvísitöluna“ lága í samanburði við margt annað

Nýjasta bók glæpasagnakonungsins Arnaldar Indriðasonar kostar 8.699 krónur í verslunum Pennans Eymundsson, tvö hundruð krónum meira en skáldsaga hans sem kom út í fyrra. Bóksali segist finna fyrir áhyggjum neytenda af hækkandi verði bóka, en segir raunina þá að bókaverð hafi hækkað lítillega í samanburði við margt annað.

Verðstríð á jólabókamarkaði og hátt í þrefaldur verðmunur

Allt að þrefaldur verðmunur er á bókum milli verslana samkvæmt úttekt verðlagseftirlits ASÍ. Á þetta við jafnvel þótt umrædd bók sé ekki til sölu í lágvöruverslunum. Dýrastar eru bækurnar að jafnaði hjá Pennanum-Eymundsson og A4.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×