Neytendur

Ófremdará­stand í bílastæðamálum aðhláturs­efni

Jakob Bjarnar skrifar
Runólfur Ólafsson hjá FÍB segir villta vestrið ríkjandi í innheimtu bílastæðagjalda á Íslandi.
Runólfur Ólafsson hjá FÍB segir villta vestrið ríkjandi í innheimtu bílastæðagjalda á Íslandi. vísir/ívar

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, flytur erindi á morgunverðarfundi sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur boðað nú klukkan níu. Þar verður fjallað  um aðgerðir til að efla neytendavernd í tengslum við gjaldskyldu á bílastæðum.

Auk ráðherra mun Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu, og svo Runólfur, en yfirskrift erindis hans er forvitnileg: Bílastæðagræðgin. Þetta er fyrirbæri sem flestir þekkja, þetta hefur gengið yfir land og þjóð eins og faraldur og var til eftirminnilegrar umfjöllunar í nýliðnu áramótaskaupi.

Græðgisvæðingin úti á landi

Runólfur segir þetta hafa sprungið út í upphafi árs 2024.

„Eða síðustu misserin. Upphafið eins og við þekkjum það í dag úti á landi var þegar þeir fóru að taka gjald á túnunum inni af Grindavík þegar menn voru að labba upp að gosi. Þá verður einhver sprengja og nú liggur við að þetta sé við hverja einustu náttúruvini sem þú finnur á landsbyggðinni.“

Runólfur veit ekki hvort hann á að hlæja eða gráta þegar hann rekur ástandið eins og það kemur honum fyrir sjónir í bílastæðamálum úti á landi.vísir/arnar

Runólfur segir þetta viðtekið óháð þjónustustigi. Og það sem meira er, fjárfestingar séu farnar að snúast um bílastæðagjöld. Artic Adventures ehf hafi til að mynda keypt jörð við Fjaðraárgjúfur eftir að skattgreiðendur lögðu 73 milljónir til ferðamannastaðarins.

„Við heyrum að jörðin hafi verið seld á hátt í milljarð. Verð uppreiknað til núverandi verðlags var hátt í hundrað milljónir. Það er bara af því að þarna áætla menn að fá þrjú til fjögur hundruð milljónir í bílastæðagjöld á ári.“

Bílastæðagræðgin hefur breytt fasteignamati jarða

Þannig hafa bílastæðin gerbreytt öllum tölum í tengslum við fasteignaverð jarða. Runólfur nefnir annað dæmi sem er Seljalandsfoss og vísar til úttektar sem gerð var í síðasta FÍB-blaði. Þar koma tölurnar hreint og klárt fram hvað þessi bransi er að velta á landsbyggðinni.

Eftir nokkru er að slægjast þegar gjaldtaka bílastæða er annars vegar. Úr síðasta FÍB-blaði.

Síðan er þessi græðgisvæðing í bænum sem er önnur en svipuð saga.

„Reykjavík ryður brautina með því að lengja bílastæðagjöldin yfir alla daga til klukkan níu á kvöldin.“

Óboðlegar innheimtuaðgerðir

Áhrifin af þessu eru ónæði þar sem ekki er gjaldskylda eða ruðningsáhrif en fólk leggur þá bílum sínum þar. Og innheimtuaðgerðir þessara fyrirtækja sem hafa gert sér mat úr þessu eru forkastanlegar að sögn Runólfs. Fólk fær vangreiðslugjöld af því að númeraplötur náðust á einhverja eftirlitsmyndavél. Krafan birtist skýringalaust í heimabanka: 4.500 upp í 7.500 krónur, takk fyrir.

Úr síðasta FÍB-blaði en þar er viðamikil úttekt gerð á bílastæðagræðginni.

„Við höfum kallað þetta villta vestrið. Það eru engar hömlur. Og nú eru peningaöflin komin inn í þessi fyrirtæki, þau eru fljót að renna á lyktina. Jón Ásgeir Jóhannesson fann lyktina af Parka. Þar sem peningarnir eru þar fara peningamennirnir inn. Skúli í Subway er einn stærsti aðilinn að Seljalandsfossfélaginu sem tekur bílastæðagjöld bara þar upp á einhverjar 400 milljónir á ári.“

Hann vísar í greinar í blaðinu, nokkur dæmi um gjaldtöku á ferðamannastöðum.

Sérkennileg saga austan úr Mýrdalssveit

„Fólk hélt að gjaldskylda væri náttúruperla. Ein fáránleg saga er austan úr Mýrdal en þar er eitthvað sauðfjárfélag þar í sveitinni. Þar er einhver hóll sem menn þekkja og talið að þar hafi verið dysjuð einhver görótt kerling langt aftur í tímann,“ segir Runólfur.

Og þar sáu menn tækifæri.

„Að þarna væri hægt að búa til áfangastað. Vegagerðin hafði gert einhver drög að bílastæði þar. Sauðfjárfélagið ætlaði að lappa upp á það og fara að taka gjald. Það þurfti reyndar bréf frá lögfræðingi sem var afkomandi sauðfjárbænda í héraðinu og meðlimur í félaginu, sá hafði séð þetta erindi og benti á að samþykktirnar heimiluðu ekki þetta. En ef þeir myndu breyta samþykktunum þá væru tveir álitlegri staðir í sveitinni.“

Runólfur kann margar sögur að segja af áformum, bæði þeim sem gufuðu upp og þeim sem urðu, þar sem gert er út á bílastæðagjald.vísir/einar

Það kom á daginn að þeir staðir voru annars vegar við bæ formanns félagsins, sem var gömul landnámsjörð, og hins vegar við bæ varaformannsins en þar var gamall braggi frá stríðsárunum sem hafði verið notaður sem samkomuhús.

„Lögfræðingurinn benti á að það vildi nú svo vel til að rekja mætti uppruna sjötíu prósent íbúanna til þessa staðar, en þetta hafði verið samkomustaður í sveitinni. Þar sköpuðust kynni. Á næsta aðalfundi var hætt við,“ segir Runólfur.

Bílastæðaástandið aðhlátursefni

Þannig er allt á eina bókina lært, græðgi í bland við heimóttarskap er efni í grín en hér er hins vegar um raunveruleika að ræða. Runólfur mun koma inn á þetta á fundinum. Hann nefnir að það hafi verið skipuð nefnd af hálfu atvinnuvegaráðherra í ágúst síðastliðnum sem átti að skila af sér eftir fimm vikur.

„Vonandi kynnir ráðherrann einhverjar niðurstöður á fundinum. Drög að reglum eru alltof veikluleg að okkar mati.“

Runólfur nefnir mýmörg dæmi, meðal annars frá hinu hálfopinbera fyrirtæki Isavia en á Leifsstöð ríkir hálfgert umsátursástand. Í síðasta áramótaskaupi gerðu höfundar sér einmitt mat úr þessu.

Klippa: Brot úr Áramótaskaupinu - KEF Brottfarir

Runólfur segir að FÍB hafi sent inn kvörtun til neytendastofu vegna þessara fyrirtækja sem eru að innheimta bílastæðagjöld á höfuðborgarsvæðinu. Svo sem bílastæðagjöld við Domus Medica, þar afsökuðu menn sig með því að þar gengi nú betur að fá stæði. En af hverju er það þá 24 stunda gjald, spyr Runólfur.

Alltaf að bregðast við einhverju ástandi

Hann segist fyrir tilviljun þekkja til varðandi íbúð sem er í blokk við Snorrabrautina, sem skagar út í götu.

„Spurt var um bílastæði og þá var bent aftur á húsið, að þar væru fullt af bílastæðum. Bónus úti á Granda er annað dæmi. Þessu er alltaf ýtt lengra og lengra,“ segir Runólfur.

Og ekki bætir samkeppni allra fyrirtækjanna sem eru komin í þennan geira og vilja gera sér mat úr þessari tekjulind. Alveg eins og í Skaupinu.

Klippa: Brot úr Áramótaskopinu - Bílastæðaöpp

Það er eins og við séum statt og stöðugt að elta skottið á okkur, eins og við séum að bregðast við einhverju ástandi en ekki að menn geti gengið að einhverjum reglum. Runólfur segir að við á Íslandi séum seinna á ferðinni með þessi bílastæði en í nágrannalöndunum.

„Þá eiga menn auðvitað að búa til eitthvað regluverk. Við erum ekkert að finna upp hjólið. En þetta er ófremdarástand,“ segir Runólfur.


Tengdar fréttir

Vangreiðslugjald orð ársins 2025

Árnastofnun hefur valið orðið vangreiðslugjald sem orð ársins í ár. Um er að ræða gjald sem bílastæðafyrirtæki innheimta þegar ekki er greitt fyrir gjaldskylt bílastæði innan tiltekins tímaramma. Önnur orð sem komu til greina voru tollastríð, fjölþáttaógnir, gímald, kjarnorkuákvæði, frelsisfloti, ofbeldisvandi og vók/vókismi.

Búnir að gefast upp á fríum stæðum við TBR

Forsvarsmenn Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur í Gnoðarvogi við Glæsibæ hafa hafið gjaldskyldu á bílastæðinu við íþróttahús félagsins. Framkvæmdastjóri segir að nauðsynlegt hafi verið að grípa til aðgerða, bílastæðið hafi verið vel sótt. Félagsmenn séu ánægðir og gjaldskyldan þegar farin að virka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×