Handbolti

Daníel lokaði markinu í Skógarseli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daníel Freyr Andrésson varði nær helming þeirra skota sem hann fékk á sig í viðureign ÍR og FH í kvöld.
Daníel Freyr Andrésson varði nær helming þeirra skota sem hann fékk á sig í viðureign ÍR og FH í kvöld. vísir/hulda margrét

FH lyfti sér upp í 4. sæti Olís-deildar karla með öruggum sigri á ÍR á útivelli, 25-33, í kvöld. Daníel Freyr Andrésson átti stórleik í marki FH-inga.

Baldur Fritz Bjarnason, markakóngur Olís-deildarinnar á síðasta tímabili, skoraði tíu mörk fyrir ÍR sem hefur ekki enn unnið leik í vetur. Breiðhyltingar eru með þrjú stig á botni Olís-deildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti.

FH tók völdin strax í byrjun leiks, skoraði fyrstu fjögur mörkin en ÍR gaf sig ekki, minnkaði muninn nokkrum sinnum í eitt mark og jafnaði svo í 11-11.

FH-ingar enduðu fyrri hálfleikinn hins vegar vel, skoruðu fimm af síðustu sex mörkum hans og fóru með fjögurra marka forskot til búningsherbergja, 12-16.

Eftir hlé voru FH-ingar mun sterkari aðilinn og gengu frá leiknum með því að skora fimm mörk í röð snemma í seinni hálfleik.

Mestur varð munurinn á liðunum níu mörk en FH vann á endanum átta marka sigur, 25-33.

Daníel fór á kostum í marki gestanna og varði 21 skot, eða 47,7 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

Garðar Ingi Sindrason skoraði níu mörk fyrir FH og Símon Michael Guðjónsson sex.

Baldur Fritz var sem fyrr sagði markahæstur hjá ÍR með tíu mörk en Róbert Snær Örvarsson skoraði sex. Markverðir heimamanna, þeir Ólafur Rafn Gíslason og Alexander Ásgrímsson, vörðu samtals níu skot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×