Erlent

Sprengdi sig í loft upp við dómshús

Samúel Karl Ólason skrifar
Maður sprengdi sig í loft upp, eftir að hann komst ekki inn á lóð dómshús í Islamabad.
Maður sprengdi sig í loft upp, eftir að hann komst ekki inn á lóð dómshús í Islamabad. AP/Mohammad Yousuf

Að minnsta kosti tólf eru látnir eftir að maður sprengdi sig í loft upp fyrir utan dómshús í Islamabad í Pakistan í morgun. Þá særðust að minnsta kosti 27 í árásinni en enginn hópur hefur lýst yfir ábyrgð á henni enn sem komið er.

AP fréttaveitan hefur eftir talsmanni innanríkisráðuneytis Pakistan að árásarmaður hafi sprengt sprengjuvesti sitt fyrir utan hlið dómshússin, þar sem hann hafi staðið við hlið lögreglubíls. Þá hafi maðurinn reynt að komast í gegnum hliðið og inn í dómshúsið. Þá mun hann hafa sprengt sig við lögreglubílinn.

Vitni sem rætt var við segja mikla óreiðu hafa skapast við sprenginguna. Mikill fjöldi fólks hafi verið á svæðinu þegar sprengingin varð. Margir særðir hafi legið eftir, illa særðir og öskrandi og aðrir hafi hlaupið í allar áttir.

Beina spjótunum að Talibönum

Eins og áður segir hefur enginn lýst yfir ábyrgð á árásinni og segir innanríkisráðherra Pakistan að til rannsóknar sé hverjir hafi gert hana. Pakistanar hafa lengi orðið fyrir árásum af höndum pakistanskra Talibana og er til rannsóknar hvort þeir beri ábyrgð á þessari árás.

Varnarmálaráðherra Pakistan sagði eftir árásina að ríkið væri í stríði við Talibana. Það stríð væri ekki eingöngu háð við landamæri Afganistan, þar sem afganskir Talibanar ráða ríkjum en þeir eru bandamenn pakistanskra Talibana, heldur víðsvegar um Pakistan.

Hann sagði að yfirvöld í Kabúl, höfuðborg Afganistan, gætu stöðvað þetta stríð en hefðu ekki áhuga á því og sagði Pakistana hafa burði til að bregðast við.

Sjá einnig: Pakistan og Afgan­istan gera vopna­hlé eftir mann­skæðustu á­tök í langan tíma

Yfirvöld í Pakistan segja að í nótt hafi tekist að koma í veg fyrir gíslatöku í háskóla pakistanska hersins í nótt. Maður ók bíl inn á lóð skólans og sprengdi sig þar í loft upp en í kjölfarið réðust fimm vígamenn inn á lóðina.

Tveir þeirra voru felldir og hinir þrír voru króaðir af. Hvort þeir hafi verið felldir í kjölfarið liggur ekki fyrir.

Yfirvöld segja pakistanska talibana bera ábyrgð á þeirri árás en því hafa Talibanar hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×