Skoðun

Fyrst heimsfaraldur, svo náttúru­ham­farir, þá gjald­þrot og nú verk­föll!

Sigríður Margrét Oddsdóttir skrifar

Flugumferðastjórar hafa boðað fimm skæruverkföll frá og með morgundeginum sunnudaginn 19. október til laugardagsins 25. október. Verkföllin munu hafa áhrif á flugrekstur á Keflavíkurflugvelli, Reykjavíkurflugvelli og yfirflug á íslenska flugstjórnarsvæðinu. Verkföllin munu trufla ferðalög og valda íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum miklu fjárhagstjóni.

Verkfallsaðgerðir flugumferðastjóra eru fastir liðir eins og venjulega, flugumferðastjórar láta hvorki heimsfaraldur, náttúrhamfarir né gjaldþrot íslenskra flugfélaga hafa áhrif á sig við samningaborðið.

Forysta flugumferðastjóra hefur fengið skýr skilaboð frá Samtökum atvinnulífsins um að ekki verður samið um launahækkanir umfram aðrar stéttir. Meginmarkmið gildandi kjarasamninga við allan vinnumarkaðinn var að ná efnahagslegum stöðugleika en flugumferðastjórar telja sig undanskilda í krafti þess að þeir geta lokað flugsamgöngum til og frá landinu, á landinu og yfir landið. Samningaviðræður við forystu flugumferðastjóra hafa staðið yfir sleitulaust allt árið.

Áhrif verkfallsaðgerða flugumferðastjóra eru mikil þrátt fyrir að stéttin sé fámenn. Ætla má að beinn kostnaður hagkerfisins af völdum algerrar stöðvunar flugsamgangna í einn dag nemi um 1,5 milljörðum. Hagkerfið verður af tekjum vegna minni neyslu ferðamanna þegar truflun verður á flugsamgöngum auk þess verður verulegt annars konar beint tjón sem flugfélög verða fyrir af völdum vinnustöðvunar.

Fjárhagslegt tjón til skemmri tíma er eitt en til lengri tíma hafa aðgerðirnar slæm áhrif á ímynd Íslands sem áfangastaðar og draga úr trúverðugleika íslenskrar flugleiðsöguþjónustu. Auk þess er mikilvægt að líta til þess að öfugt við flest önnur nágrannaríki er flug til og frá landinu eina tenging okkar við útlönd, af því leiðir að tjón vegna stöðvunar flugsamgangna er umtalsvert meira en mælist í hagtölum.

Fyrirhuguð verkföll sem hafa verið boðuð eru einungis fyrsta hrinan, í kjölfarið verður væntanlega boðað til fleiri verkfalla sem munu standa yfir á komandi vikum og mánuðum. Aðgerðir flugumferðarstjóra munu bitna á fjölda venjulegs fólks og þær munu bitna á fyrirtækjum í íslenskri ferðaþjónustu, draga þrótt úr útflutningsfyrirtækjum sem við byggjum okkar lífskjör á.

Höfundur er formaður Samtaka atvinnulífsins.




Skoðun

Sjá meira


×