Innlent

Ó­á­nægja með Kópa­vogs­módelið: For­eldrar upp­lifa sam­visku­bit, aukið á­lag og stöðuga tíma­pressu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Samkvæmt rannsókninni hefur innleiðing módelsins skapað nýjar áskoranir fyrir foreldra og aukið álag á marga.
Samkvæmt rannsókninni hefur innleiðing módelsins skapað nýjar áskoranir fyrir foreldra og aukið álag á marga. Vísir/Arnar og Anton Brink

Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna mikla óánægju meðal foreldra í Kópavogi með svokallað Kópavogsmódel. Foreldrar lýsa auknu álagi, stressi og að kerfið henti ekki nema fólk sé með sveigjanleika í starfi. Niðurstöður benda auk þess til þess að álag hafi frekar aukist hjá mæðrum en feðrum.

Fyrirkomulag Kópavogsmódelsins er þannig að leikskólinn er gjaldfrjáls í sex tíma á dag en fyrir fleiri tíma en það í vistun greiða foreldrar hærra gjald en þekkist í öðrum sveitarfélögum. Stjórnendur innan bæjarins og leikskóla hafa lýst mikilli ánægju með kerfið í viðtölum en í rannsókninni kemur fram að meðal foreldra sé mikil óánægja með greiðslufyrirkomulag og fyrirkomulag skráningadaga og safnskóla. Þá lýsa foreldrar auknu álagi eftir innleiðingu módelsins og að þau telji hvatann að breytingunum frekar hafa verið fjárhagslegan en að hann hafi verið drifinn af því að auka velferð barna og starfsfólks.

Rannsóknin er á vegum Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins og fjallar um viðhorf foreldra til Kópavogsmódelsins. Höfundur rannsóknarinnar er Sunna Kristín Símonardóttir, nýdoktor við félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Hún mun kynna niðurstöður rannsóknarinnar á Menntakviku HÍ á morgun. Í rannsókninni var lagt upp með að svara tveimur spurningum. Annars vegar um upplifun foreldra af módelinu og hins vegar um möguleika þeirra til að samræma vinnu og fjölskyldulíf. 

Viðtöl við tuttugu foreldra

Rannsóknin byggir á viðtölum við 20 foreldra leikskólabarna í Kópavogi en viðmælenda var aflað með tilviljunarkenndu úrtaki. Úrtakið í rannsókninni samanstóð af tuttugu þátttakendum sem voru valdir með lagskiptu slembiúrtaki foreldra tveggja til fimm ára barna sem voru búsett í Kópavogi úr Þjóðskrá. 

Af þessum tuttugu þátttakendum voru fimm feður og fimmtán mæður. Aldur þátttakenda var á bilinu 24 til 44 ára, með meðalaldur 36 ár. Fjöldi barna hjá þátttakendum var á bilinu eitt til þrjú, með meðaltali 1,75 börn. Börnin voru að meðaltali 22 mánaða gömul, eða rétt svo tveggja ára, þegar þau fengu pláss á leikskóla. Af þátttakendum voru sautján í hjúskap eða sambúð, en þrír einhleypir.

Samkvæmt rannsókninni nýttu sex viðmælendur sér sex tíma gjaldfrjálsan leikskóla, en ein móðir að auki hafði í hyggju að stytta vistunartíma í sex klukkustundir. Fjórtán viðmælenda nýttu meira en sex tíma, en flestir höfðu skert vistunartímann frá því sem var eftir innleiðingu nýja kerfisins. Í rannsókninni segir að margar ástæður séu fyrir því að fólk nýti sér ekki sex gjaldfrjálsa tíma. Þær tengist til dæmis stöðu á vinnumarkaði en líka því að hafa aukið svigrúm til að sækja börnin.

Samkvæmt nýrri rannsókn á viðhorfum foreldra leikskólabarna í Kópavogi er Kópavogsmódelið of stíft og sveigjanleiki takmarkaður. Vísir/Anton Brink

Meirihluti barna nær tveggja ára þegar þau komast á leikskóla

Í rannsókninni er fyrst yfirlit yfir fjölskyldustefnu á Íslandi og tengsl hennar við efnahagsumhverfið hverju sinni, lagaumhverfið, fæðingarorlofskerfið og það umönnunarbil sem hefur skapast á Íslandi frá fæðingarorlofi til leikskóla. Vísað er í skýrslu á vegum BSRB frá 2022 þar sem kom fram að einungis um sjö prósent barna komast í leikskóla að loknu fæðingarorlofi eða fyrr, 27 komast inn á bilinu 12,5 til 18 mánaða og 66 prósent á bilinu 18,5 til 24 mánaða. Þetta umönnunarbil er oftar en ekki brúað af mæðrum. Þá er einnig fjallað um breytt umhverfi leikskólakennara samhliða fjölgun innflytjenda.

Eins og kemur fram að ofan er fyrirkomulag módelsins þannig að um er að ræða gjaldfrjálsa sex tíma vistun í leikskóla. Foreldrar sem geta nýtt sér það greiða aðeins fæðisgjald, sem er samkvæmt gjaldskrá 11.617 krónur. Gjaldið hækkar svo nokkuð mikið fyrir hvern hálftíma umfram sex klukkustundir og því greiða foreldrar sem þurfa 6,5 tíma vistun 38.671 krónu á mánuði en foreldrar sem þurfa að nýta 8,5 klukkustunda vistun greiði 65.403 krónur. Hámarksdvalartími er níu klukkustundir og fyrir það greiða foreldrar 86.6888 krónur á mánuði.

Foreldrar geta sótt um tekjutengdan afslátt á leikskólagjöldum ef þeir eru með meðaltekjur fyrir skatta innan tekjuviðmiða sem birt eru í gjaldskrá. Systkinaafsláttur fer eftir fjölda yngri systkina og er 30 prósent afsláttur af dvalargjaldi ef barn á eitt yngra systkini, en 100 prósenta afsláttur af dvalargjaldi ef barn á tvö yngri systkini eða fleiri í leikskóla eða í dvöl hjá dagforeldri.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi hefur lýst mikilli ánægju með módelið. Kerfið hafi verið brotið fyrir innleiðingu og það hafi ekki verið annað hægt en að breyta því. Vísir/Anton Brink

Mikil óánægja með skráningardaga

Í Kópavogi þurfa foreldrar sérstaklega að skrá börnin sín í leikskóla á skráningardögum og er börnum safnað saman í tvo leikskóla í sveitarfélaginu sem eru opnir á þessum dögum. Slík skráning er líka í Reykjavík en þar sækja börnin þó sinn eigin leikskóla á þessum skráningardögum.

Í rannsókninni kemur fram að margir foreldrar í Kópavogi sendi því börn sín ekki í leikskóla á þessum dögum, nema í neyð, og lýsa því að börnin upplifi mikla streitu og óöryggi að fara í ókunnugt umhverfi. Skólastjóri í Kópavogi sagði fyrr á þessu ári í viðtali við Vísi að börnunum þætti þetta spennandi og einhverjir viðmælenda rannsóknarinnar taka undir það en flestir segja þetta ýta undir samviskubit og að fyrirkomulagið virki alls ekki.

Þá er einnig niðurstaða rannsóknarinnar að þessar kerfisbreytingar í Kópavogi ýti undir félagslega mismunun og auki álag, sérstaklega á ákveðna hópa. Kerfið henti þannig sérstaklega illa foreldrum í verri félagslegri og efnahagslegri stöðu og auki almennt álag og fjárhagslega og auki enn frekar almennt og fjárhagslegt álag.

Módelið gangi aðeins séu foreldrar með gott félagslegt bakland, með sveigjanlegan vinnutíma eða í hlutastarfi. Það sé ekki raunveruleiki allra foreldra. Þó kemur einnig fram í rannsókninni að þeir foreldrar sem eru með sveigjanleika lýsa því einnig að hann geti leitt til óljósra marka á milli atvinnu og einkalífs og að álag í vinnu færist jafnvel yfir á kvöld og helgar.

Þrjú meginþemu gagnrýni

Í rannsókninni segir sýna megi fram á þrjú meginþemu þegar komi að gagnrýni á módelið. Sú fyrsta lúti að því að byrjað hafi verið á vitlausum enda, það er leikskólakerfinu hafi verið breytt en ekki vinnufyrirkomulagi foreldra. Þá lýsa viðmælendur samráðsleysi við foreldra, að upplýsingagjöf við innleiðingu hafi verið takmörkuð og að kynning á fyrirkomulaginu hafi verið sett þannig fram að innleiðingin myndi styðja við fyrir fram ákveðna stefnu bæjarins.

„Þeir sem nýta hana eiga það sameiginlegt að hafa sveigjanlegar vinnuaðstæður, traust stuðningsnet og börn sem sætta sig við styttri dvöl. Sumir viðmælenda uppfylla vissulega öll þessi skilyrði, en taka þó fram í viðtölunum að staðan sé sannarlega ekki þannig hjá öllum foreldrum. Viðmælendur árétta því að kerfið sé ekki með öllu réttlátt, því það komi illa við foreldra sem eru í verri félagslegri og efnahagslegri stöðu og/eða skorti bakland og stuðning,“ segir í rannsókninni. 

Í heild sýni frásagnir sem snúi að þessari gagnrýni að frásagnir af þessu lýsi ekki aðeins daglegu skipulagi heldur „djúpstæðri upplifun af stöðugri streitu, ábyrgð og þörfinni fyrir að finna jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs.“

„Þrátt fyrir að fólk reyni að aðlaga sig og finna lausnir, þá er kerfið oft of stíft og sveigjanleikinn takmarkaður. Samviskubit, þreyta og stöðug tímapressa eru algengir þættir í lífi foreldra sem reyna að halda öllum boltum á lofti.“ 

Rannsókn um viðhorf foreldra til Kópavogsmódelsins

Annað þema lýtur að togstreitu umönnunar og atvinnu sem felur í sér að foreldrum líði eins og þau séu „alltaf í kapphlaupi við tímann“ og að sveigjanleiki í vinnu sé frumforsenda fyrir því að kerfið virki fyrir barn og foreldra. Þriðja þemað lýtur að kynjuðum og stéttbundum áhrifum sem vísar til þess að mæður verði fyrir meiri áhrifum en feður og að ömmur séu líklegri til að aðstoða en afar.

Sparnaður frekar en velferð barna

Viðmælendur segja svo margir að þeir hafi upplifað að sparnaður frekar en velferð barna eða starfsfólks hafi verið útgangspunktur breytinganna.

„Ég held að þetta hafi alltaf byrjað sem leið til sparnaðar og svo fegrað með hvað er best fyrir börnin. Þannig eru bara bæjarfélögin rekin, það er svoleiðis þú veist. Auðvitað er þetta stór og eins og ég sagði hugrökk breyting að gera en ofboðslega [sem] þetta nauðbeygir þá sem að verst hafa það til þess að aðlagast og hérna þó að ég sjái það að börnin mín njóti góðs af þá hefur þetta reynst mér afskaplega erfitt og bara gerir það að verkum að ég er að breyta öllu lífi mínu til þess að aðlagast,“ segir ein móðir um þetta.

Samkvæmt rannsókninni samræmist innleiðingin ekki endilega félagslegum þörfum barnanna. Vísir/Anton Brink

Börnin vilja vera lengur

Í rannsókninni segir að margir foreldrar lýsi þannig mikilli tímapressu og streitu við að samræma vinnu og fjölskyldulíf og að breytingarnar hafi aukið álagið. Þeir foreldrar sem búi við sveigjanleika í vinnu finni einnig fyrir auknu álagi í kjölfar breytinganna. Þá kemur einnig fram að breytingin sé ekki endilega í samræmi við félagslegar þarfir barnanna og mörg börn lýsi því þegar þau eru sótt snemma að þau vilji vera lengur í leikskólanum.

Kerfisbreytingar sem sköpuðu nýjar áskoranir og aukið álag

Niðurstaða rannsóknarinnar er að innleiðing Kópavogsmódelsins hafi haft víðtæk áhrif á daglegt líf foreldra leikskólabarna í Kópavogi. Þrátt fyrir að markmið breytinganna hafi verið að bæta gæði leikskólaþjónustu og draga úr álagi á börn og starfsfólk, bendi frásagnir foreldra til þess að kerfisbreytingarnar hafi í mörgum tilfellum skapað nýjar áskoranir og aukið álag á fjölskyldur

Í heildina sýni niðurstöðurnar að þó að yfirlýst markmið Kópavogsmódelsins séu jákvæð mæti framkvæmdin ekki þörfum allra foreldra og sé jafnvel líkleg til að hafa skaðleg áhrif á atvinnuþátttöku kvenna og kynjajafnrétti innan sem utan heimilis.

Þá er undirstrikað mikilvægi þess að stefnumótun í leikskóla- og dagvistunarmálum sé samhæfð við vinnumarkaðinn og að tekið sé tillit til fjölbreytileika fjölskyldna, bæði hvað varðar félagslegar aðstæður og kynbundna ábyrgð. Samráð og gagnsæi þurfi að vera grundvallarþættir í innleiðingu breytinga og mikilvægt sé að undirbúa slíkar kerfisbreytingar og útfæra þær eftir ítarlega greiningarvinnu áður en ákvörðun er tekin um innleiðingu.


Tengdar fréttir

Yngstu börnin sem hefja innritun í haust fjórtán mánaða

Fyrri úthlutun í leikskóla Kópavogs fyrir haustið er lokið og var öllum börnum sem fædd eru í júní 2024 og eldri boðið leikskólapláss. Yngstu börnin verða því um fjórtán mánaða þegar aðlögun hefst í leikskólum Kópavogs að loknu sumarfríi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×