Erlent

Æðsti leið­togi mor­móna látinn

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Russel M. Nelson var 101 árs þegar hann lést.
Russel M. Nelson var 101 árs þegar hann lést. Deseret News/Jeffrey D. Allred

Russel M. Nelson, forseti og æðsti leiðtogi Kirkju Jesús Krists hinna síðari daga heilögu, betur þekktrar sem mormónakirkjan, lést í nótt 101 árs að aldri.

Kirkjan greinir frá því í tilkynningu að hann hafi andast á heimili sínu í Salt Lake City í Utahríki en dánarorsökin er ekki tekin fram. Nelson starfaði sem hjartaskurðlæknir en varði drjúgum hluta starfsævinnar innan embættismannakerfis mormónakirkjunnar. Hann tók við embætti forseta kirkjunnar árið 2018.

Samkvæmt umfjöllun CNN er reiknað með því að Dallin H. Oaks taki við embættinu en hefð er fyrir því að sá sem setið hefur lengst í æðsta ráði kirkjunnar, sem kennt er við postulana tólf, taki við embættinu.

Embætti forseta Kirkju Jesús Krists hinna síðari daga heilögu er um margt ólíkt embætti biskups hér á landi eða páfans í Róm. Forsetar eru álitnir spámenn sem geta breytt grundvallarkennisetningum trúnnar samkvæmt beinum skilaboðum frá guði.

Á Íslandi er starfrækt kirkja mormóna og samkvæmt hagstofunni eru 118 meðlimir í söfnuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×