Skoðun

Mansalsmál á Ís­landi

Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Enn og aftur koma upp á yfirborðið mansalsmál hér á landi. Fréttaskýringarþátturinn Kveikur upplýsti í vikunni um fjölda mála sem tengd er starfsemi nagla- og snyrtistofum. Ég vil byrja á því að hrósa eftirlitsaðilum fyrir það að koma upp um þessi tilvik sem fram hafa komið en á undanförnum misserum hefur vinnustaðaeftirlit verkalýðsfélaganna innan Alþýðusambands Íslands verið sérstaklega mikilvægur drifkraftur í að upplýsa um mál sem þessi. Hlutverk opinberra aðila í eftirliti og eftirfylgni er jafnframt mikilvægt enda hafa þeir aðilar ríkari heimildir til aðgerða og því þarf samstarf á milli þessara aðila að vera gott.

Gleymum því ekki að staða einstaklinga sem eru föst í þessum aðstæðum er sérstaklega viðkvæm enda fólkið varnarlaust með lítið stuðningsnet og mikilvægt er að standa við bakið á þeim. Samfélagið þarf að draga lærdóm af þeim málum sem hafa komið fram og bæta úr reglum og lögum sé þess þörf en einnig að efla eftirlit og auka heimildir til inngripa.

Brot á lögum um handiðnað

Í mörgum tilfellum kom fram að rekstraraðilar sem stunduðu brotastarfsemi gagnvart starfsfólki sínu höfðu ekki uppfyllt allar kröfur til þess að standa að þessum rekstri. Því hefði ég talið að tiltölulega auðvelt ætti að fylgjast með rekstri slíkra fyrirtækja og stöðva starfsemi sem ekki uppfyllir lög og reglur.

Til þess að standa í ýmissi iðnstarfsemi er gerð krafa um að rekstur sé undir stjórn meistara og því er meistarabréf grundvallarforsenda þess fá heimild til að standa í atvinnurekstri.

Það er ljóst í mínum huga að nauðsynlegt er að yfirfara verkferla opinberra aðila með veitingu starfsleyfa til þess að tryggja að kröfur séu uppfylltar. Með yfirferð er bæði hægt að tryggja einfaldari veitingar á leyfum sem og auka skilvirkni í kerfum án þess að dregið sé úr kröfum.

Brotastarfsemi á vinnumarkaði

Það er ljóst að nauðsynlegt er að afleiðingar þess að brjóta vísvitandi á starfsfólki verði þyngri, brot þurfa að hafa raunverulegar afleiðingar fyrir gerendur. Á það bæði við um þegar rætt er um jafn alvarleg mál og mansal en einnig og sérstaklega þegar kemur að launagreiðslum, þar sem vísvitandi eru greidd of lág laun. Í umræddum tilvikum sem upplýst var um núna virðast vangoldin laun hafa verið umtalsverð, samkvæmt fulltrúum verkalýðsfélagsins. Þessu verður svo sannarlega að breyta.

Höfundur er þingmaður Samfylkingar.




Skoðun

Skoðun

Þúsundir kusu Sönnu

Anna Bentína Hermansen Einarsdóttir,Ármann Hákon Gunnarsson,Baldvin Björgvinsson,Brynja Guðnadóttir,Haraldur Ingi Haraldsson,Jón Hallur Haraldsson,Kolbrún Erna Pétursdóttir,Ólafur H. Ólafsson,Rakel Hildardóttir,Sigrún Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×