Viðskipti innlent

SVEIT muni af­henda öll gögn og ekki greiða dag­sektir

Lovísa Arnardóttir skrifar
Einar Bárðarson segir engar líkur á því að SVEIT greiði dagsektir.
Einar Bárðarson segir engar líkur á því að SVEIT greiði dagsektir.

Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT, segir samtökin ekki muna þurfa að greiða dagsektir. Samtökin muni afhenda Samkeppniseftirlitinu öll gögn sem þau vilja.

„Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála er SVEIT mikil vonbrigði. Í honum felst að Samkeppniseftirlitið getur haldið áfram rannsókn málsins,“ segir Einar í yfirlýsingu vegna málsins til fréttastofu. Hann segir það þvert á væntingar SVEIT.

„Frá upphafi hefur SVEIT tekið skýrt fram að samtökin hafi ekkert að fela og muni afhenda öll gögn, ef niðurstaða áfrýjunarnefndar yrði á þennan veg. Gögnin hafa lengi verið tilbúin til afhendingar og verður komið til Samkeppniseftirlitsins vel fyrir 6. október næstkomandi. Engar líkur eru því á að SVEIT muni greiða dagsektir,“ segir hann enn fremur.

SVEIT heldur á morgun haustfund sinn þar sem Einar segir að farið verði yfir málið með félögum. Aðalumræðuefnið verði þó starfsemi heilbrigðiseftirlits um land allt og fyrirhugaðar breytingar á ábyrgð með eftirliti með hollustuháttum og mengunarvörnum.

Greint var frá því fyrr í dag að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði staðfest að dagsektir upp á milljón krónur skyldu leggjast á SVEIT ef félagið afhenti Samkeppniseftirlitinu ekki gögn í seinasta lagi 6. október. Gögnin snúa að rannsókn á meintum samkeppnisbrotum.

Frá þessu var greint í tilkynningu á vef Samkeppniseftirlitsins. Það var þann 11. júní sem Samkeppniseftirlitið tók ákvörðun um að leggja dagsektir á SVEIT vegna brota samtakanna á lagaskyldu til þess að afhenda eftirlitinu gögn. Samtökin höfðu haldið því fram að málið ætti ekki heima á borði eftirlitsins.

Málið snýr að því að í mars síðastliðnum hafi Samkeppniseftirlitinu borist kvörtun frá Alþýðusambandi Íslands, Eflingu og Starfsgreinasambandi Íslands vegna „ólögmæts verðsamráðs fyrirtækja á veitingamarkaði og ólögmæts verðsamráðs innan Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði“. Var því haldið fram að gerð SVEIT á einhliða kjarasamningi við félagið Virðingu, þar sem kveðið væri á um launakjör á veitingamarkaði, hafi farið gegn samkeppnislögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×