Innlent

Sam­dráttur eftir fjögurra ára vaxtar­skeið

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Mun færi íbúðir eru í byggingu nú en fyrir ári síðan.
Mun færi íbúðir eru í byggingu nú en fyrir ári síðan. Vísir/Anton Brink

Samkvæmt nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins er samdráttur hafinn í byggingariðnaðinum eftir fjögurra ára vaxtarskeið. Störfum hefur fækkað, innflutningur bygginarefna minnkað og fjöldi íbúða í byggingu dregist saman.

Greiningin er dagsett 11. september og gerir grein fyrir því að byggingariðnaðurinn sé ein af undirstöðum íslensks efnahagslífs. 

„Niðursveiflan í byggingariðnaðinum hefur bein áhrif á hagvöxt, sem mældist aðeins 0,3 prósent á fyrri helmingi ársins eftir samdrátt í fyrra. Efnahagsáhætta fylgir miklum sveiflum í greininni. Slíkar sveiflur skapa efnahagslegan vítahring þar sem samdráttur í dag býr til skort á íbúðum og lakari innviði á morgun, sem aftur leiðir af sér minni framleiðni, lakari samkeppnishæfni, verðbólgu og hærri vexti,“ segir í greiningunni.

Árið 2024 nam velta í byggingariðnaði og mannvirkjagerð 660 milljörðum króna, eða um níu prósent af heildarveltu í hagkerfinu. Á fyrri hluta ársins 2025 nam veltan tæpum 310 milljörðum króna sem samsvarar um tveggja prósenta samdrætti. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2021 sem samdráttur mælist í greininni.

Í greininni segir að umtalsverður samdráttur er í uppbyggingu íbúða en nú eru rúmlega 5500 íbúðir í byggingu. Í júní árið 2024 voru hins vegar rúmlega sex þúsund íbúðir í byggingu. Ástæðan fyrir samdrætti í iðnaðinum séu þá til að mynda háir stýrivextir Seðlabankans sem hafi gert fjármögnun íbúðauppbyggingar dýrari. Þá hafi einnig háir vextir íbúðakaupenda og ströng lánaskilyrði hægt á sölu íbúða.

„Stærsta hindrunin í vegi fyrir aukinni uppbyggingu hefur hins vegar verið skortur á byggingarhæfum lóðum á viðráðanlegu veðri og langur og óskilvirkur ferill við skipulags- og byggingarleyfi hjá sveitarfélögum.“

Störfin fækka

Um tuttugu þúsund manns störfuðu í byggingariðnaðinum í júlí 2024 og nam það um níu prósentum af heildarfjölda starfandi á Íslandi. Ef fjöldi starfandi í júlí 2024 og 2025 má sjá að störfunum fækkaði um eitt prósent. 

„Einnig hefur hlutfall lausra starfa af heildarfjölda starfandi í greininni lækkað umtalsvert. Það var rúmlega 10% á öðrum ársfjórðungi í fyrra en var komið niður í tæplega 6% á öðrum ársfjórðungi í ár.“

Sömuleiðis er samdráttur í innflutningi byggingarefnis sem nemur 34 prósentum af innfluttu timbri, 23 prósentum í krossviði og rúmlega tíu prósent í spóna- og byggingarplötum. Samanborið var vöxtur í slíkum innflutningi fyrir ári síðan en sömu þróun má einnig sjá í sementssölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×