Innlent

„Lög­reglan mun grípa fyrr inn í núna“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Kristján Helgi Þráinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Kristján Helgi Þráinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. vísir/ívar

Dagskrá Menningarnætur tekur breytingum í ár til að bregðast við harmleik sem skók þjóðina í fyrra. Fólk er hvatt til passa upp á hvert annað og flykkjast í miðbæ Reykjavíkur í bleikum klæðum til að heiðra minningu Bryndísar Klöru.

Sérstakur blaðamannafundur fór fram í morgun til að kynna aukna gæslu á Menningarnótt í skugga voveiflegs atburðar fyrir ári síðan. Þá var Bryndís Klara Birgisdóttir stungin til bana skömmu eftir að hátíðardagskrá Menningarnætur lauk. 

Biðlað til fólks að mæta í bleiku

Atvikið skók þjóðina og hefur komið af stað vitundarvakningu um ofbeldi og vopnaburð ungmenna. Til að mynda var stofnað til átaksins Riddarar kærleikans og þá hefur Reykjavíkurborg staðið fyrir Vertu klár í aðdraganda Menningarnætur.

„Menningarnótt er fjölskylduhátíð og er kannski eitthvað sem við eigum að gera saman sem fjölskylda. Samfélagið á að virka sem ein heild og við eigum svolítið að hugsa um hvort annað og ef við sjáum einhvern í vanda þá eigum við að veita hjálparhönd,“ sagði Daníel Óskar Jóhannesson, verkefnastjóri viðburða hjá Reykjavíkurborg sem hefur leitt verkefnið Vertu klár. 

Vinkonur Bryndísar hafa hvatt fólk til að flykkjast í miðbæinn í bleikum klæðum henni til heiðurs. Borgarstjóri var klædd í bleikt frá toppi til táar á fundinum í morgun. Hún tilkynnti að mínútu þögn verði á hátíðinni og hvatti fólk til að mála bæinn bleikan.

„Við hvetjum fólk líka til að huga að þeim sem að kannski hafa það ekki svo gott og eru ekki jafn kátir og glaðir eins og ættingjar hennar og vinir hafa sagt að hún hafi verið. Því það á engum að líða þannig að hann sé út undan eða einn í samfélaginu. Við viljum auðvitað líka koma í veg fyrir ofbeldi og það má líka hugsa hlýtt til þessa unga drengs sem framdi þennan hræðilega verknað. Ég efast ekki um að við sem samfélag berum líka ábyrgð á honum,“ Sagði Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. 

Aukin gæsla og breytt snið á Menningarnótt

Unglingar með drykk verði færðir í athvarf

Dagskránni lýkur klukkutíma fyrr en síðustu ár sem lögreglan tekur fagnandi.

„Við verðum með aukin viðbúnað. Við verðum með fleiri menn í bænum. Lögreglan mun grípa fyrr inn í núna en við höfum gert. Við munum taka á unglingadrykkju. Ef unglingar eru með áfengi með sér þá munum við taka það af þeim á staðnum og hella því niður og færa unglinga í athvarf,“ sagði Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. 

Aukinn viðbúnaður verður einnig að dagskrá lokinni.

„Þetta situr í okkur öllum. Það er engin spurning og við tökum klárlega mið af þessu. Þetta er atburður sem við viljum ekki sjá gerast hjá okkur og ekki heldur þessar hræðilegu afleiðingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×