Erlent

Geim­fari Apollo 13 látinn

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Jim Lovell er látinn 97 ára að aldri.
Jim Lovell er látinn 97 ára að aldri. NASA

Jim Lovell geimfari er látinn 97 ára að aldri. Hann stýrði Apolló-13-tunglferð Bandarísku geimferðastofnunarinnar aftur til jarðar og öðlaðist samstundis heimsfrægð fyrir hetjudáðir sínar.

Bandaríska geimferðastofnunin (NASA) greinir frá andláti Lovell í tilkynningu. Árið 1970 fór hann fyrir áhöfn hins nafntogaða leiðangurs geimskutlunnar Apolló-13 sem átti að lenda á tunglinu. Á leið sinni um geiminn sprakk súrefnistankur og er leiðtogahæfni Lovell meðal annars að þakka að ekki fór verr.

Saga tunglferðarinnar varð að kvikmyndinni Apollo 13 frá árinu 1995 þar sem Tom Hanks fór eftirminnilega með hlutverk Lovell. Þegar geimfararnir tóku eftir biluninni í súrefnistönkunum mælti áhafnarmeðlimurinn Jack Swigert hin fleygu orð: „Houston, we have a problem.“

Tugir milljóna um allan heim fylgdust með geimförunum snúa aftur til jarðar og lenda í Kyrrahafinu. Allir þrír geimfarar um borð komust heilir á húfi aftur heim til fjölskyldna sinna.

„Festa og hugrekki Jim hjálpaði þjóð okkar að ná til tunglsins og breytti yfirvofandi harmleik í lærdómsríkan sigur. Við syrgjum fráfall hans á sama tíma og við fögnum afrekum hans,“ er haft eftir Sean Duffy, forstöðumanni Bandarísku geimferðastofnunarinnar.

„Bandaríska geimferðastofnunin vottar fjölskyldu Jims Lovell samúðarkveðjur. Ævi hans og störf hafa veitt milljónum manna innblástur um áratuga skeið,“ segir í tilkynningunni.

Lesa má frekar um ævi og störf Lovell á heimasíðu NASA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×