Skoðun

Fjöl­breytni í endur­hæfingu skiptir máli

Hólmfríður Einarsdóttir skrifar

Í starfi mínu hjá Ljósinu, þar sem unnið er með krabbameinsgreindum, sé ég daglega hversu öflug áhrif fjölbreytt iðja getur haft á þá sem sækja endurhæfingu. Þar eru allir að vinna að ákveðnum bata en engir tveir eru eins og það á einnig við um markmið þeirra, áskoranir og hvatningu til framfara.

Ég tel mikilvægt að skapa vettvang þar sem ólíkir einstaklingar og ólíkar nálganir fá að mætast. Það getur falið í sér list, hreyfingu, fræðslu og tengsl við jafningja. Í krefjandi aðstæðum sér maður að húmorinn skiptir marga máli. Því er gott að geti líka slegið á létta strengi og hlegið saman. Einn hlið endurhæfingar er að gefa tækifæri til að prófa eitthvað nýtt og vekja áhuga á forsendum hvers og eins þar sem áherslan er á ferlið en ekki útkomuna. Tilgangur endurhæfingar er nefnilega ekki eingöngu að byggja upp styrk eða virkni heldur einnig að endurheimta sjálfstæði, byggja upp sjálfsmynd í nýjum líkama og finna tilgang.

Þetta er allt saman partur af því að hlúa að líkama og sál á heildrænan hátt. Ég tel slíka nálgun vera öfluga leið til að viðhalda jákvæðri þátttöku, ekki bara meðan á formlegri endurhæfingu stendur, heldur einnig í daglegu lífi til framtíðar.

Nú í ágúst og september stendur yfir sérstök afmælisdagskrá í Ljósinu, þar sem fjölbreytnin í starfsemi okkar verður enn meiri. Þar koma saman ólíkar greinar og sérfræðingar með mismunandi nálganir sem ég vona að þjónustuþegar Ljóssins eigi eftir að njóta góðs af. Með þessari dagskrá viljum við styrkja okkur fólk til framtíðar og sýna enn betur hversu mikilvægt það er að bjóða upp á fjölbreytta iðju í endurhæfingu.

Höfundur er iðjuþjálfi. 




Skoðun

Sjá meira


×