Innlent

Mót­mæla heim­sókn Ursulu von der Leyen

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ursula von der Leyen hefur verið forseti framkvæmdastjórnar ESB frá 2019.
Ursula von der Leyen hefur verið forseti framkvæmdastjórnar ESB frá 2019. AP/Omar Havana

Fé­lagið Ísland-Palestína hef­ur efnt til mót­mæla gegn op­in­berri heim­sókn Ursulu von der Leyen, fram­kvæmda­stjóra Evr­ópu­sam­bands­ins, til Íslands í vikunni.

Greint var frá því í dag að von der Leyen kæmi í opinbera heimsókn og myndi dvelja á Íslandi dagana 16. til 18. júlí. Á meðan dvölinni stendur mun hún funda með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra.

Tilgangur heimsóknar framkvæmdastjórans er til að ræða stöðu alþjóðamála, öryggis- og varnarmála, viðskiptamála, almannavarna og loftslagsmála.

Félagið Ísland-Palestína segir hins vegar að von der Leyen hafi í starfi sínu „tekið virkan þátt í helför Ísraels í Palestínu með ítrekuðum stuðningsyfirlýsingum við Ísrael.“ Þá hafi hún „haldið diplómatískum hlífðarskildi yfir Ísrael og komið í veg fyrir að Evrópusambandi beiti viðskipta- og vopnasölubanni gegn Ísrael“. 

Félagið vill að íslensk stjórnvöld kalli eftir því „að Ursula Von Der Leyen verði send til dómstóla í Haag“ en ekki boðið í skoðunarferð til Þingvalla.

Í tilefni af heimsókninni boðar félagið til mótmæla við Austurvöll á morgun, mánudaginn 14. júlí, klukkan 14 „þar sem Alþingi er að ljúka störfum án nokkurra aðgerða þingsins til að sporna við þjóðarmorðinu“. Þar ætlar félagið að mótmæla „fullkomnu aðgerðarleysi ráðamanna á Íslandi gegn þjóðarmorði Ísraels á Gaza og heimsókn Ursulu von der Leyen.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×