Innlent

Laxadauðinn í Berufirði komin á borð lög­reglu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Laxar með vetrarsár svamla í sjókvíum í Berufirði. Mikill fjöldi sveimara voru í kvíunum þegar starfsfólk MAST, sem tók þessar myndir, var þar á ferð fyrir skemmstu.
Laxar með vetrarsár svamla í sjókvíum í Berufirði. Mikill fjöldi sveimara voru í kvíunum þegar starfsfólk MAST, sem tók þessar myndir, var þar á ferð fyrir skemmstu.

Matvælastofnun hefur farið fram á opinbera rannsókn lögreglu vegna meintra brota fiskeldisfyrirtækis á Austfjörðum á lögum um velferð dýra. Þetta kemur fram á vefsíðu MAST.

Þar segir að meint brot varði útsetningu seiða í of kaldan sjó með þeim afleiðingum að þau drápust í stórum stíl. Matvælastofnun telur meint brot varða við ákveðin ákvæði dýravelferðarlaga. Stofnunin metur brotin alvarleg og segist þar af leiðandi hafa óskað eftir lögreglurannsókn.

Ekki kemur fram í tilkynningu MAST hvaða fyrirtæki um ræði. Nýverið var greint frá stórfelldum laxadauða í Berufirði þar sem fiskeldisfyrirtækið Kaldvík er með aðstöðu. Fyrirtækið þurfti að farga tugþúsundum eldislaxa sem voru ýmist dauðir vegna vetrarsára eða áttu sér enga lífsvon vegna þess hversu illa leiknir þeir voru.

Hjá Kaldvík drápust í nóvember 470 þúsund fiskar, í desember 758 þúsund og í janúar 381 þúsund fiskar.

Lögreglan á Austurlandi hefur málið til meðferðar og veitir Matvælastofnun ekki frekari upplýsingar um málið að sinni.

Fréttin er í vinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×