Eins og fram hefur komið fannst maður á sjötugsaldri þungt haldinn á göngustíg í Gufunesi í gærmorgun. Maðurinn lést stuttu eftir komu á spítala. Samkvæmt heimildum fréttastofu var maðurinn tekinn í Þorlákshöfn þar sem hópur fólks gekk í skrokk á honum og beitti hann fjárkúgun.
Eftir það var hann tekinn til Reykjavíkur þar sem hópurinn hélt áfram að gang í skrokk á honum. Lögreglan á Suðurlandi framkvæmir nú rannsókn á bíl sem notaður var, samkvæmt heimildum, til að ferja manninn. Samkvæmt heimildum fréttastofu er enn leitað sönnunargagna í málinu.
„Rannsóknin er enn á frumstigum og það er enn verið að ná utan um málsatvik. Þannig já, hún er skammt á veg komin,“ segir Jón Gunnar og að lögregla sé enn að fara yfir það hvort þau krefjist gæsluvarðhalds.
Þið hafið þá frest væntanlega til eftir hádegis eða eitthvað svoleiðis?
„Já, það er mismunandi eftir hverjum og einum einstakling.“
Fram kom í tilkynningu Lögreglunnar á Suðurlandi að hún hefði notið liðsinnis annarra lögregluembætta og ríkislögreglustjóra við rannsókn málsins.
Önnur embætti aðstoða með handtökur og tæknimál
„Við höfum notið aðstoðar þessara embætta við rannsókna og ástæður fyrir því eru misjafnar. Hvort sem það er tæknilegs eðlis eða vegna handtaka eða eitthvað slíkt. Það er af mjög mismunandi toga og ekki óalgengt að við njótum aðstoðar hvors annars, embættin.“

Fimm voru handtekin nær hádegi og svo þrír seinni part eða um kvöldið. Í hópi þeirra handteknu er, samkvæmt heimildum fréttastofu, þekktur ofbeldismaður. Þá hefur einnig, samkvæmt heimildum, verið talað um tengsl við tálbeituhópa sem hafa starfað síðustu mánuði. Málið er þó aðeins talið tengjast fjárkúgun.
Jón Gunnar segist á þessu stigi ekki geta svarað því hvort gerendur tengist tálbeituhópum eða hvort í hópnum sé þekktur ofbeldismaður.
Málið vekur óhug en Jón Gunnar segir fólk ekki þurfa að hafa áhyggjur. Hann hvetur fólk til að fara varlega í öllum sínum samskiptum.
„Það má alveg búast við því að það verði fleiri tilkynningar í dag en það hefur ekkert verið ákveðið með neitt slíkt. Við munum jafnt og þétt setja tilkynningar á netið.“