Skoðun

Hvort er meira í anda Sjálf­stæðis­flokksins?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Tvær fréttir birtust á mbl.is í dag upp úr viðtölum sem tekin voru við þær Guðrúnu Hafsteinsdóttur og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í þættinum Spursmálum en báðar sækjast þær sem kunnugt er eftir því að verða næsti formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans eftir viku. Er áhugavert að bera efni þessara frétta saman.

Fréttin sem sneri að Guðrúnu fjallaði um það að hún teldi rétt að Sjálfstæðisflokkurinn sýndi gott fordæmi með því að endurgreiða ríkisstyrkinn sem flokkurinn fékk árið 2022 úr vösum skattgreiðenda, um 170 milljónir króna, þar sem hann hefði ekki uppfyllt lagaleg skilyrði fyrir viðtöku styrksins fyrr en nokkru eftir að hann var greiddur út.

Fréttin varðandi Áslaugu snerist hins vegar um það að hún hefði sem ráðherra beitt sér fyrir því að einkareknir háskólar færu á framfæri ríkissjóðs gegn því að þeir felldu niður skólagjöld nemenda sinna. Fram kom í fréttinni að þetta kostaði skattgreiðendur um 600 milljónir króna árlega. Með öðrum orðum marga milljarða til framtíðar.

Hvort ætli sé meira í anda Sjálfstæðisflokksins og þeirrar hugmyndafræði sem hann stendur fyrir? Að tala fyrir því að endurgreiða umdeildan ríkisstyrk úr vösum skattgreiðenda sem flokkurinn hefur kallað eftir að verði lagður af eða koma 600 milljónum króna af árlegum rekstrarkostnaði einkarekinna háskóla á herðar skattgreiðenda?

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) og heldur úti vefnum Stjórnmálin.is.




Skoðun

Sjá meira


×