Sport

Bald­vin stór­bætti eigið Ís­lands­met og tryggði sig inn á EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Baldvin Þór er á leiðinni á EM í Hollandi.
Baldvin Þór er á leiðinni á EM í Hollandi.

Baldvin Þór Magnússon bætti eigið Íslandsmet í þrjú þúsund metra hlaupi innanhúss um rúmar fimm sekúndur. Hann hafði betur gegn Norðmanninum Filip Ingebrigtsen og stóð uppi sem sigurvegari á Norðurlandameistaramótinu. Í leiðinni tryggði Baldvin sér þátttökurétt á Evrópumótinu sem fer fram í Hollandi í næsta mánuði.

Baldvin var nýbúinn að setja Íslandsmet upp á 7:45,13 en hljóp í dag á 7:39,94 sem er bæting um 5,19 sekúndur.

Lágmarkið inn á EM er 7:43,00, mótið fer fram í Apeldoorn í Hollandi 6. - 9. mars næstkomandi.

Baldvin er einn af níu íslenskum keppendum á NM, sem fer fram í Espoo í Finnlandi. Ísland teflir fram sameiginlegu liði með Danmörku gegn liðum frá Finnlandi, Svíþjóð og Noregi.

Nánari upplýsingar um mótið má finna hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×