Innlent

Hættir sem for­maður Raf­iðnaðar­sam­bandsins

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kristján Þórður Snæbjarnarson kom nýr inn á þing fyrir Samfylkinguna fyrr í vikunni. Þar er hann fyrsti varaformaður velferðarnefndar Alþingis.
Kristján Þórður Snæbjarnarson kom nýr inn á þing fyrir Samfylkinguna fyrr í vikunni. Þar er hann fyrsti varaformaður velferðarnefndar Alþingis. Vísir/Vilhelm

Kristján Þórður Snæbjarnarson, þingmaður Samfylkingarinnar, er hættur sem formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Hann hefur gegnt embættinu frá 2011.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu Kristjáns sem birtist um eittleytið. Hann hafi tilkynnt afsögn sína úr embætti formanns Rafiðnaðarsambands Íslands á miðstjórnarfundi sambandsins í dag.

„Nú er komið að kaflaskilum hjá mér þar sem ég hef tekið sæti á Alþingi okkar Íslendinga. Þá er jafnframt komið að leiðarlokum sem formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Ég var kjörinn sem formaður RSÍ í lok apríl 2011 og hef verið í forystu sambandsins alla tíð síðan,“ segir í færslunni. 

Hann segist hafa tekið við góðu búi hjá RSÍ og verið lánssamur að vinna með fjölmörgum frábærum einstaklingum. Árangur hefði ekki náðst án allra þeirra sem setið hafa í miðstjórn og sambandsstjórn og þeirra þingfulltrúa sem hafa setið þing RSÍ. 

Dýrmætt að verða varaforseti ASÍ

Kristján segir ýmsar áskoranir hafa komið upp á undanförnum fjórtán árum. Hann ætli ekki að telja öll þau verkefni upp en „að hafa verið treyst til þess að vera varaforseti Alþýðusambands Íslands var mér þó sérstaklega dýrmætt,“ segir hann. 

„Ég fór úr því að vera í neðsta sæti varaforseta og upp í það að sinna embætti forseta ASÍ á umrótatímum. Það er með miklu þakklæti sem ég skil við þessi skemmtilegu verkefni,“ segir Kristján í færslunni. 

Loks segir hann það vera mikinn heiður að fá að vera hluti af öflugum og samhentum ríkisstjórnarflokkum sem muni leiða jákvæðar breytingar samfélaginu til heilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×