Innlent

Bjarni og Þórður búnir að segja af sér

Jón Þór Stefánsson skrifar
Bjarni og Þórður Snær taka ekki sæti á Alþingi.
Bjarni og Þórður Snær taka ekki sæti á Alþingi. Vísir/Vilhelm/Einar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, og Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi fjölmiðlamaður og verðandi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, hafa sagt af sér þingmennsku.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, nýkjörinn forseti Alþingis, las upp bréf þeirra tveggja þess efnis á fyrsta fundi nýs þings í dag.

Bjarni Benediktsson tilkynnti í janúar að hann væri á leið úr pólitíkinni. Hann hygðist ekki taka sæti á Alþingi samhliða því að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi.

Við afsal þingmennsku Bjarna tekur Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, við þingsætinu.

Þórður Snær tilkynnti í aðdraganda kosninganna 30. nóvember að hann ætlaði sér ekki að taka sæti á Alþingi kæmist hann á þing. Þá ákvörðun tók hann í kjölfar þess að gamlar bloggfærslur hans voru rifjaðar upp, en í þeim þótti hann lýsa óviðurkvæmilegum viðhorfum í garð kvenna. 

Eftir kosningarnar var greint frá því að Þórður yrði fram­kvæmda­stjóri þing­flokks Sam­fylkingarinnar.

Í stað Þórðar mun Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, taka við þingsætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×