Veður

Nýr veðurstofuvefur kominn í loftið

Lovísa Arnardóttir skrifar
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setur nýjan vef í loftið í dag ásamt Hildigunni H.H. Thorsteinsson, forstjóra Veðurstofu Íslands.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setur nýjan vef í loftið í dag ásamt Hildigunni H.H. Thorsteinsson, forstjóra Veðurstofu Íslands. Mynd/Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson).

Nýr veðurvefur Veðurstofunnar fór í loftið í dag. Vefurinn er fyrsta skrefið í endurnýjun vefs Veðurstofunnar og tækniumhverfi hans. Stöðum sem hægt er að fá veðurspá fyrir hefur verið fjölgað

Nýi vefurinn fyrir veðurspár er undir slóðinni https://gottvedur.is/. Vefurinn er enn þá í þróun en þegar endurnýjun á núverandi vef lýkur munu nýju veðursíðurnar færast á vefslóðina vedur.is. Enn er hægt að skoða veðurspár á gamla vefnum en Hildigunnur H.H. Thorsteinsson forstjóri Veðurstofu Íslands segir mestu breytingarnar hjá þeim sem skoði vefinn í farsíma.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að í fyrsta áfanga sé lögð áhersla á upplýsingar sem flestir sækja daglega, en það eru veðurspár fyrir tiltekinn stað. Fyrir utan bætta framsetningu á staðarspám hefur stöðum sem hægt er að fletta upp til að fá veðurspá verið fjölgað verulega og smám saman mun þeim stöðum fjölga enn frekar.

Viðmótið á nýja vefnum.Veðurstofan

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra opnaði vefinn í dag og sagði það mikinn heiður. Hildigunnur segir þetta mikil tímamót.

„Það að vefurinn hafi dugað nánast óbreyttur þetta lengi er til marks um gæði hans á sínum tíma, en engu að síður vorum við komin í tækniskuld með vefinn og upplýsingatækniumhverfið sem tengist honum,“ segir hún í tilkynningu.

Upplýsingar settar fram á öðruvísi formi

Nýr vefur hefur að geyma samskonar gögn og spár og fyrri vefur. En upplýsingarnar eru settar fram á svolítið öðru formi svo notendur sjái betur hvað veðurspáin er að segja hverju sinni.

„Þetta er verulega umfangsmikið verkefni og nú þegar höfum við fjárfest um 250 milljónum í verkefninu og reiknum með að fjárfesta um 100 milljónum á næstu árum. Við gerum miklar kröfur til rekstraröryggis, uppitíma og að vefurinn þoli mikið álag, fyrir utan það að framsetning á upplýsingum sé skýr, vefurinn notendavænn og komi til með að þjónusta okkar notendur enn betur en eldri útgáfan gerir í dag,“ segir Hildigunnur.

Í tilkynningu Veðurstofunnar er einnig farið vel yfir ferlið sem hófst með útboði á vegum Ríkiskaupa í upphafi árs 2022. Origo var hlutskarpast í því útboði. Nánar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×