Handbolti

Segir Ís­land verða að vinna Slóveníu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aron þurfti að þola svekkjandi tap í kvöld. Hann segir möguleika Íslands velta mikið á úrslitum gegn Slóveníu.
Aron þurfti að þola svekkjandi tap í kvöld. Hann segir möguleika Íslands velta mikið á úrslitum gegn Slóveníu. TF-Images/TF-Images via Getty Images

„Þetta er auðvitað bara svekkelsi,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein, eftir naumt 26-25 tap hans manna fyrir Argentínu í H-riðli HM karla í handbolta í Zagreb.

Argentína leiddi lengi vel og með töluverða forystu. Sterkur lokakafli Bareina var nálægt því að skila liðinu jafntefli eða sigri sem hefði dugað þeim í milliriðil Íslands á kostnað Argentínumanna. Eins marks tap niðurstaðan og Bareinar því á leið til Porec í Forsetabikarinn.

„Það sem skipti mestu máli í þessu öllu saman voru þessir tæknifeilar. Við erum að henda boltanum frá okkur hvað eftir annað, mjög einfaldlega. Á línumann sem var ekki frír, hvað eftir annað, tveggja metra sendingar manna á milli. Ég verð að segja það var eiginlega ótrúlegt hvað við vorum nálægt því að komast áfram með svona marga tæknifeila í svona leik,“

„Það munaði litlu, jafntefli hefði verið nóg fyrir okkur,“ segir Aron.

Leikur morgundagsins skipti öllu fyrir Ísland

Aðspurður um hvort hann hafi fylgst með íslenska liðinu hér í borg segir Aron:

„Alltof lítið. Maður hefur verið á fullu að vinna og undirbúa sig. En við erum með frábært lið, hins vegar, mér finnst vera góður andi í liðinu og finnst menn fullir huga að ætla að gera gott mót. Mér líst bara vel á þetta.“

Ísland hefur unnið fyrstu tvo leikina við Grænhöfðaeyjar og Kúbu, lið sem Slóvenar hafa einnig unnið, og ljóst að liðið sem vinnur leik Íslands og Slóveníu annað kvöld kemst í góða stöðu fyrir milliriðilinn.

„Það er algjör lykilleikur upp á framhaldið. Við þurfum að vinna þann leik til að eiga von á átta liða úrslitum. En við skulum átta okkur á því að Slóvenar eru með mjög gott lið, klóka og reynda leikmenn, en mér finnst við vera aðeins betri í dag. Þeir eiga til að vera svolítið upp og niður. Þeir voru frábærir á ÓL en kannski ekki verið eins sterkir í aðdraganda þessa móts. Það er kannski erfitt að meta þá frá fyrstu tveimur leikjunum,“ segir Aron.

Viðtalið má sjá að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×