Erlent

Vilja nota fleiri að­ferðir en bara BMI til að meta of­fitu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þeir sem eru með BMI yfir 30 teljast vera með offitu.
Þeir sem eru með BMI yfir 30 teljast vera með offitu. Getty

Sérfræðingar vilja falla frá því að greina offitu með því að reikna út líkamsmassastuðul (BMI) einstaklinga, þar sem það leiði bæði til of- og vangreininga.

Samkvæmt nýrri skýrslu sem birt var í Lancet Diabetes and Endocrinology er BMI ekki áreiðanlegur mælikvarði þegar kemur að greiningu offitu, meðal annars vegna þess að ekki er um nákvæma mælingu á fitumassa að ræða.

Þá segir BMI ekkert til um fitudreifingu á líkamanum né almenna heilsu viðkomandi.

Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur að öðrum greiningaraðferðum sem yrðu notaðar til viðbótar við útreikinga á BMI, svo sem hlutfall milli umfangs mittis og mjaðma annars vegar og mittis og hæðar hins vegar.

Þá er hvatt til þess að meira sé horft til almennra einkenna um óheilbrigði.

Tillögurnar njóta stuðnings 75 heilbrigðissamtaka víðsvegar um heiminn.

Samkvæmt skýrslunni mælast sumir einstaklingar ekki með of hátt BMI, jafnvel þótt þeir séu sannarlega að glíma við offitu, sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar þeirra. Þá eru aðrir sem mælast með of hátt BMI, og þar með offitu, jafnvel þótt þeir séu að öðru leyti fullkomlega heilbrigðir.

„Spurningin hvort offita er sjúkdómur er gölluð þar sem hún gerir ráð fyrir öllu eða engu; þar sem offita er annað hvort alltaf sjúkdómur eða aldrei sjúkdómur. Sönnunargögnin sýna hins vegar að raunveruleikinn er flóknari,“ segir Francesco Rubino, formaður nefndarinnar sem gaf út skýrsluna.

„Sumir einstaklingar með offitu viðhalda eðlilegri líffærastarfsemi og almennri heilsu, jafnvel yfir lengri tíma, á meðan aðrir sýna merki og einkenni um alvarlegan sjúkdóm.“

Leggja sérfræðingarnir meðal annars til að offita verði aðgreind í tvo flokka; offitu með einkenni og offitu án einkenna.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×