Skoðun

Fangelsis­mál - Sparnaður og endur­hæfing

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar

Fangelsismál á Íslandi hafa lengi verið til umræðu, sérstaklega vegna hve hár kostnaður er við hvern fanga og endurkomu. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun er kostnaður við hvern fanga á bilinu 17,7 til 21,5 milljónir króna á ári, eða um 48.500 til 58.900 krónur á dag. Þetta eru verulegar fjárhæðir sem kalla á endurskoðun á núverandi kerfi.

Rafrænt eftirlit

Ein leið til að draga úr þessum kostnaði er að auka notkun rafræns eftirlits með ökklabandi. Kostnaður við slíkt eftirlit er töluvert lægri, þarna er hægt að spara tugi ef ekki hundruðir milljóna á ári. Með því að lengja þann tíma sem einstaklingar afplána með rafrænu eftirliti og fjölga þeim sem nýta þetta úrræði, mætti spara verulegar fjárhæðir.

Atvinnuþátttaka fanga utan fangelsa

Annað úrræði er að leyfa föngum í opnum fangelsum að stunda vinnu utan fangelsis. Með því að selja vinnu framlag þeirra á almennum markaði gæti hluti tekna runnið til fangans sjálfs, en afgangurinn til fangelsis kerfisins. Þetta myndi ekki aðeins draga úr kostnaði heldur einnig stuðla að endurhæfingu og betri aðlögun að samfélaginu.

Skortur á meðferðaráætlunum

Samkvæmt reglugerð um fullnustu refsinga skal Fangelsismálastofnun, í samvinnu við fanga, gera meðferðaráætlun fyrir hvern fanga. Því miður hefur komið í ljós að slíkar áætlanir hafa því miður ekki verið gerðar, samkvæmt skýrslu ríkisendurskoðun. Þetta bendir til skorts á skipulagi og metnaði innan kerfisins, sem þarf að bæta til að tryggja markvissa endurhæfingu.

Þörf á viðhorfsbreytingu

Til að ná fram þessum breytingum er nauðsynlegt að viðhorfsbreyting verði innan stjórnkerfisins. Fangelsi eiga ekki að vera lélegar kjöt geymslur, fangelsi á að vera endurhæfingarstöð þar sem einstaklingar fá endurhæfingu til betrunar. Með því að innleiða nýjar aðferðir og leggja áherslu á endurhæfingu má skila samfélaginu betri einstaklingum og draga úr endurkomutíðni fanga.

Fangelsi á ekki að vera bákn

Það er kominn tími til að endurskoða refsivörslukerfið á Íslandi, og kveðja gamlan draug. Með aukinni notkun rafræns eftirlits, atvinnuþátttöku fanga utan fangelsa og markvissum meðferðaráætlunum má draga úr kostnaði og bæta endurhæfingu. Þetta krefst viðhorfsbreytingar og aukins metnaðar innan stjórnkerfisins, og ávinningurinn fyrir samfélagið verður óumdeilanlegur.

Allar breytingar krefjast dug og þor.

Höfundur er lífskúnstner.




Skoðun

Sjá meira


×