Dómstóll í Lundúnum félls í nóvember á allar kröfur Samherja hf., í máli sem félagið höfðaði á hendur Odee vegna afsökunarbeiðni og vefsíðu sem hann setti upp í nafni Samherja.
Afsökunarbeiðnin og vefsíða sem Odee smíðaði og lét líta út fyrir að vera á vegum Samherja var hluti af útskriftarverkefni hans við Háskólann í Björgvin í Noregi. Odee hefur ítrekað reynt að blekkja fjölmiðla með fölskum fréttatilkynningum sem hann hefur sent út, nú síðast í nafni bandarísku kaffihúsakeðjunnar Starbucks.
Samherji óskaði eftir því að Odee tæki vefsíðuna niður, afhenti fyrirtækinu lén hennar og gerði grein fyrir því að síðan hefði verið fölsuð. Því neitaði hann. Í kjölfarið stefndi Samherji Odee fyrir breskum dómstól en vefsíðan var hýst í Bretlandi. Dómurinn taldi vefsíðuna hvorki hafa falið í sér listræna skopstælingu né skrumskælingu sem rúmast innan þess tjáningarfrelsis sem listamenn njóta. Því var fallist á kröfur Samherja án þess að eiginleg aðalmeðferð færi fram í málinu.
Bauð Odee að greiða eitt pund
Í frétt Ríkisútvarpsins í gær er haft eftir tilkynningu frá Samherja að dómari hæstaréttar í Lundúnum hafi hafnað áfrýjunarbeiðni Odees en að hann hefði þrjár vikur til að skjóta þeirri ákvörðun til æðsta dómstóls Bretlandseyja.
Odee hafi enn á ný hafnað sáttabeiðni fyrirtækisins, sem hafi boðist til að fella niður málið gegn því að hann hætti notkun á hugverki fyrirtækisins og greiddi því eitt pund í málamyndabætur.
Vill nú 200 þúsund pund
Í fréttatilkynningu frá Odee segir að daginn fyrir fyrirtöku í málinu í gær hafi Samherji boðist til þess að fella niður allar kröfur um málskostnað, gegn því að hann félli frá áfrýjun.
Hann hafi afþakkað boðið og þá hafi Samherji krafið hann um 200 þúsund pund, 35 milljónir króna, í málskostnað.
„Þvingandi útspil sem sem er í hrópandi mótsögn við fyrri tilboð Samherja. Þetta virðist ekki vera neitt annað en tilraun til þess að ógna mér og þagga niður í mér vegna gagnrýni minnar í þeirra garð vegna Namibíumálsins [e. Fishrot scandal].“
Hluti af taktík Samherja
Odee segir að í þessu samhengi sé háttsemi Samherja gagnvart honum ekki einungis móðgandi heldur til marks um taktík félagsins til þess að þagga niður gagnrýnisraddir á breiðum grunni.
„Þessi skyndilega krafa um okurmálskostnað ýtir undir þá ímynd að málaferlunum sé ætlað að ógna mér, til þess að draga úr umræðu um samfélagslega ábyrgð félagsins.“
Niðurstaða dómsins í gær hafi verið sú að fallast á skyldu Odees til að greiða hluta málskostnaðar Samherja en greiðslu hafi verið frestað þangað til niðurstaða hefur verið fengin um áfrýjun.
Þá hafi Samherji fallið frá kröfu sinni sem sneri að brotum á hugverkarétti félagsins og dómurinn hafi dæmt félagið til að bera málskostnað hvað þann hluta málsins varðar.
Odee muni áfrýja málinu og halda áfram baráttu sinni fyrir réttlæti.