Innlent

Lög­reglu­manni ekki gerð refsing átta árum eftir að hann réðst á fanga

Jón Þór Stefánsson skrifar
Málið varðar atvik sem átti sér stað á lögreglustöðinni Hverfisgötu þann 16. maí 2016.
Málið varðar atvik sem átti sér stað á lögreglustöðinni Hverfisgötu þann 16. maí 2016. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest sakfellingu lögreglumanns sem var ákærður fyrir líkamsárás gegn fanga í fangageymslu lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu þann 16. maí 2016. Honum er þó ekki gerð refsing í málinu.

Héraðsdómur kvað upp dóm sinn í málinu í júní 2017, og þá var lögreglumaðurinn dæmdur í sextíu daga skilorðsbundið fangelsi. Málið fór síðan fyrir Landsrétt ári seinna og þá voru sextíu dagarnir mildaðir í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi.

Í fyrra var farið fram á að málið yrði endurupptekið og féllst endurupptökudómur á það.

Lögreglumanninum var gefið að sök að ráðast á fangann, skella höfði hans og búk í gólfið þegar verið var að flytja hann fyrir dóm. Fanginn var grunaður um að taka þátt í slagsmálum þar sem hnífum var beitt.

Atvikið náðist á myndbandsupptöku. Það var mat héraðsdóms á sínum tíma að miðað við upptökuna hefði fanginn ekki veitt mótspyrnu þó hann hefði einu sinni rykkt handleggjunum til.

Lögreglumaðurinn játaði sök að hluta. Hann neitaði að áverkar fangans væru af hans völdum.

Líkt og áður segir staðfesti Landsréttur ákvörðun um sekt mannsins, en gerði honum ekki refsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×