Dómur Landsréttar var kveðinn upp klukkan 15 og hefur ekki enn verið birtur. Hann staðfestir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.
Sumarið 2023 var Helgi dæmdur til að greiða starfsmönnunum fjórum alls 67 milljónir króna. Vísir ræddi í kjölfarið við grafíska hönnuðinn Bjarka Atlason, sem var einn af þeim sem stefndu Helga.
Hann lýsti því að mennirnir hafi talið sig svikna eftir að hafa ekki fengið kaupréttarsamninga sína efnda og svo ekki fengið greitt eftir að samkomulag um greiðslu eftir sölu Sling var gert. Héraðsdómur hafi dæmt Helga til greiðslu milljónanna 67.
Mennirnir hafi furðað sig á því að hann hafi ákveðið að áfrýja dóminum til Landsréttar, enda hefðu lögfróðir menn tjáð þeim að litlar líkur væru á að dóminum yrði snúið. Bjarki hafi talið Helga einungis vera að fresta málinu.
Helgi svarar fyrir sig
Helgi setti sig í samband við Vísi eftir að frétt þessi birtist og óskaði eftir því að fá eftirfarandi yfirlýsingu birta:
„Ég er ekki sammála niðurstöðu dómsins sem tekur ekki til lykilstaðreynda í þessu sérstaka máli. Sem snýst um meinta kauprétti manna sem aldrei unnu hjá fyrirtækinu eða stoppuðu mjög stutt við í árdögum þess.
- Tveir af þeim fjórum mönnum sem standa fyrir þessari málsókn hafa aldrei unnið fyrir Sling. Já, þú last rétt, aldrei unnið fyrir Sling. Gísli Guðmundsson hefur aldrei unnið hjá Sling. Jose Eduardo Valenzuela Martinez hefur aldrei unnið hjá Sling. Hinir tveir hættu fyrir langa löngu. Aron Ingi Óskarsson vann í 4 mánuði fyrir Sling sumarið 2016. Bjarki Fannar Atlason vann fyrir auglýsingastofu 2015 sem heitir Döðlur sem vann fyrir Sling. Bjarki hætti öllum afskiptum af Sling 2017 þegar hann stofnaði eigið fyrirtæki sem heitir 50Skills.
- Við sölu Sling sumarið 2022 hafði margt af kjarna starfsfólki félagsins unnið dag og nótt fyrir fyrirtækið í mörg ár. Þetta frábæra starfsfólk, 34 aðtölu, stóð með fyrirtækinu í gegnum mikla erfiðleika árum saman. Allt þetta góða fólk voru hluthafar í fyrirtækinu við sölu og nutu þess fjárhagslega.
- Vert er líka að hafa í huga og spyrja dóminn: Af hverju er ekki öllum hluthöfum Sling þá gert að greiða hlutfallslega eftir eign sinni í félaginu heldur aðeins einum hluthafa af mjög mörgum?
Fólk getur lært margt af vegferð Sling á árunum 2015 til 2022. Startup fyrirtæki sem nær árangri í Ameríku krefst úthalds og þrautsegju. Ef einhver hefur áhuga á að kynna sér söguna og læra af henni er þeim frjálst að hafa samband helgi@nordurver.com.“