Starfshópur heilbrigðisráðherra birti fyrr í vikunni skýrslu um stöðumat lyfjafræðilegrar þjónustu í apótekum. Þar eru lagðar til ýmsar breytingar sem sagðar eru myndu stuðla að meiri skilvirkni í heilbrigðiskerfinu, til að mynda með því að veita lyfjafræðingum heimild til að ávísa ákveðnum lyfjum fyrir minniháttar heilsufarsvandamál og endurnýja lyfjaávísanir.
„Það er rosa mikið álag á heilbrigðiskerfið og við erum svolítið að horfa á: Hvernig getum við nýtt þessa sérfræðiþekkingu þannig að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað. Það er kannski kominn tími til að allar heilbrigðisstéttir leggist á eitt til að bæta heilbrigðisþjónustuna fyrir samfélagið allt,“ segir Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir, formaður Lyfjafræðingafélags Íslands.
Hópurinn leggur til úrætur í þremur áföngum sem innleiða ætti á næstu fimm árum. Í fyrsta áfanga er lagt til að stuðningur við upphaf lyfjameðferðar verði aukinn og bólusetningar færðar í apótek.
Í öðrum áfanga, sem á að hefjast innan þriggja ára, er lagt til að lyfjafræðingum verði heimilt að endurnýja lyfjaávísanir og að þeim verði veitt heimild til útgáfu lyfjaávísunar í neyðartilfellum. Í þriðja fasa eiga apótek til dæmis að verða fyrsti viðkomustaður, til að létta álag á heilsugæslu og bráðadeildum.
„Þetta er klárlega hluti af lausninni vegna þess að þarna erum við að horfa fam á að apótekin verði fyrsti viðkomustaður fyrir fólk til að létta álagið á heilsugæslu. Þannig að þau tilfelli sem fara á heilsugæsluna séu aðeins flóknari og að við lendum ekki í því að fólk endi á bráðamóttöku vegna þess að biðin á heilsugæslu sé svo löng.“