Þingflokkar Viðreisnar og Samfylkingarinnar funduðu hvor um sig síðdegis í gær þar sem formenn flokkanna upplýstu þingmenn um gang viðræðnanna. Ekki hefur náðst í þingflokksformenn né varaþingflokksformenn flokkanna tveggja í morgun. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði hins vegar í samtali við fréttastofu í morgun að góður taktur sé í viðræðunum og að samtalið gangi vel. Formenn flokkanna muni funda á ótilgreindum stað nú eftir hádegið.
Ræða „allan pakkann“
Þá kom þingflokkur Flokks fólksins kom saman til fundar klukkan ellefu í morgun til að ræða stöðu mála. Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður flokksins sagðist fyrir fundinn vera bjartsýnn um framhaldið. „Mér heyrist bara takturinn vera góður, ég veit ekki annað og ég er bjartsýnn,“ segir Guðmundur Ingi.
Áttu von á að þið munið ræða einhver ákveðin málefni ykkar í milli í þingflokknum?
„Við munum ræða þetta allt saman. Ég held að það sé bara ekkert um annað að ræða en að taka allan pakkann og mér lýst bara mjög vel á þetta eins og ég segi. Eins og ég hef alltaf sagt, góðir hlutir koma hægt og rólega.“
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sagði í gær að formennirnir þrír hafi þegar rætt ýmis málefni, bæði sameiginlega fleti og sem og ágreiningsefni.
Aðspurður vill hann lítið tjá sig um hvað hann telur að helst gæti valdið ágreiningi í viðræðunum.
„Nei ég held að það sé ekki tímabært að tala neitt um það. Við bara látum þetta ganga,“ svarar Guðmundur Ingi.