Ákvörðun Bjarna Benediktssonar forsætis- og starfandi matvælaráðherra um að leyfa í gær, tveimur af þeim fjórum sjávartútvegsfyrirtækjum sem sóttu um, að veiða langreyð og hrefnu til fimm ára, hefur verið harðlega gagnrýnd af umhverfis- og dýravelferðarsamtökum. Á móti fagnar bæjarráð Akraness leyfisveitingunni.
Stuðningur starfsstjórnar
Ráðherrar í starfsstjórn styðja ákvörðun Bjarna og telja að ekki hafi þurft að bera málið undir þau áður en ákvörðun var tekin.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra styður ákvörðunina.
„Þegar sótt er um leyfi til hvalveiða og álit Hafrannsóknastofnunar er eins og það er þá getur ráðherra ekki annað en gefið út leyfi,“ segir Þórdís.
Það er ekki hægt að liggja á því eins og ráðherra sýnist enda liggur fyrir álit umboðsmanns Alþingis í því. Málið er tilbúið núna.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla, núsköpunar- og iðnaðarráðherra er á sömu skoðun og sagði aðspurð að hún styðji ákvörðun um hvalveiðar.
Hafró og Fiskistofa skiluðu umsögnum fyrir kosningar
Samkvæmt upplýsingum frá matvælaráðuneytinu barst umsögn Hafrannsóknarstofnun um hvalveiðar til ráðuneytisins þann 19. nóvember síðastliðinn. Fiskistofa skilaði matvælaráðuneytinu tveimur umsögnum um hvalveiðar. Sú fyrri fjallaði um langreyðar og barst þann 20 nóvember. Sú síðari fjallaði um hrefnur og barst fimm dögum fyrir alþingiskosningar eða þann 26. nóvember.
Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er í framhaldi tekin ákvörðun um leyfi til hvalveiða.
Leynilegu upptökurnar
Í síðasta mánuði birtust leynilegar upptökur af Gunnari Bergmann fasteignasala og syni Jóns Gunnarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þar greindi hann frá því að faðir sinn hefði samþykkt að taka fimmta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar gegn því að fá stöðu í matvælaráðuneytinu þar sem hann mynda beita sér fyrir að leyfi fyrir hvalveiðum yrði veitt. Jón Gunnarsson þingmaður sagði þá að engin fótur væri fyrir því sem kom fram í upptökunum.
Í leyniupptökunni sem var gerð þann 31. október á Edition hóteli kemur fram að stefnt sé á að veita hvalveiðileyfi til fimm ára.
Bjarni Benediktsson tilkynnti svo í framhaldi af málinu að Jón myndi ekki koma nálægt ákvörðun um leyfi til hvalveiða heldur færi í önnur verkefni innan matvælaráðuneytisins.
Ákvörðun eftir kosningar
Í leynilegu upptökunni frá 31. október segist Gunnar Bergmann aðspurður af huldumanni, að ákvörðun um hvalveiðar verði tekin fyrir alþingiskosningarnar en takist það ekki sé enn tími til að leyfa veiðarnar.
„Við höfum enn tíma til að gera þetta að loknum kosningum. Það tekur alltaf einn til tvo mánuði eftir kosningar að mynda nýja ríkisstjórn. Hann vill gera þetta fyrir kosningarnar, ekki eftir kosningarnar. En sumir, sérstaklega konurnar í flokknum hans, eru honum ekki sammála,“ sagði Gunnar Bergmann í leynilegri upptöku þann 31. október.