Þetta segir í svari matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Vísis um hvalveiðileyfi. Greint var frá því í nóvember að Hvalur hf. hefði sótt um leyfi til veiða á langreyði og fjögur fyrirtæki hefðu sótt um leyfi til veiða á hrefnu.
Í svari ráðuneytisins segir að enn sem komið er hafi engin hvalveiðileyfi verið gefin út á árinu síðan leyfi til veiða á langreyðum var gefið út til Hvals hf. í júní síðastliðnum. Það leyfi sé í gildi út árið. Eins og kunnugt er taldi Hvalur hf. leyfið of seint til komið og ekki var farið á hvalavertíð í ár á grundvelli þess.