Skoðun

Sam­fylkingin er Evrópuflokkur

Hörður Filippusson skrifar

Hver eftir annan hafa þeir sem mest tjá sig opinberlega um stjórnmál, allt frá kjörnum fulltrúum annarra flokka til blaðamanna og athyglissjúkra stjórnmálafræðinga, tönnlast á því, margir örugglega gegn betri vitund, að Samfylkingin hafi breytt um stefnu varðandi aðild að Evrópusambandinu. Að formaður flokksins hafi kastað því máli útbyrðis. Svo er ekki.

Stefna Samfylkingarinnar er afrakstur mikillar vinnu í grasrót flokksins, í málefnanefndum og á fundum flokksfélaga. Mikið plagg og vandað. Formaður er kosinn til að framfylgja þessari stefnu en hlýtur að sjálfsögðu að vera leiðandi í forgangsröðun og áherslum.

En hvað segir stefnan? "Samfylkingin vill stefna að fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu með upptöku evru að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu". Svo segir í gildandi stefnu flokksins.

Skýrara getur það ekki verið.

Og hvað sagði Kristrún formaður? Í fyrstu stefnuræðu sinni á landsfundi flokksins talaði hún skýrt um að hún væri Evrópusinni. Hún sagði líka að árangursríkasta leiðin til að koma því máli áfram væri "að sameinast um að fara aftur í kjarna jafnaðarmennskunnar og styrkja okkur þar, breikka umboðið og vera svo leiðandi í umræðunni um alþjóðamál og Evrópusambandið - þegar tækifærið gefst".

Það sem gerst hefur síðan er að flokkurinn hefur unnið á grundvelli stefnu sinnar að forgangsmálum, með jafnaðarstefnu að leiðarljósi, og lagt grundvöll að nauðsynlegum aðgerðum á næstu kjörtímabilum, í heilbrigðis- og öldrunarmálum, í atvinnu- og samgöngumálum og í húsnæðis- og kjaramálum. Allt eru þetta mál sem þola enga bið.

Stefna stjórnmálaflokks geymir að sjálfsögðu ýmis áherslumál og ekki hægt að setja öll á oddinn hverju sinni. Það má kannski skýra með lítilli dæmisögu:

Við ætlum að fara til Akureyrar. Það er stefnan. Hvort við förum Holtavörðuheiði eða Kjöl er útfærsulatriði. Hver er besta leiðin? Hagkvæmasta leiðin? Besti tíminn? Hvernig er færðin? Er kannski ófært í bili vegna snjóa eða óveðurs? Hvað þá? Er kannski skynsamlegt að bíða uns snjóa leysir og færð batnar? Við vitum að aftur kemur vor í dal og þá er að drífa sig norður. Því við ætlum til Akureyrar.

Og Samfylkingin stefnir að aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Höfundur er jafnaðarmaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×