Skoðun

Takk hátt­virti borgar­stjóri Einar Þor­steins­son

Þórunn Sif Böðvarsdóttir skrifar

Takk fyrir að benda okkur kennaraletingjunum á hvað við erum frek og nennum ekki að vinna vinnuna okkar. Þessi ræða þín verður örugglega til þess að nú hunskast allir kennarar, ef kennara skyldi kalla, til að fara að vinna vinnuna sína.

Takk fyrir að benda kennurum á hvað það er dýrt fyrir sveitarfélögin að þeir séu svona mikið veikir, ég er viss um að ræðan þín verði nú til þess að við förum nú að hætta því veseni. Fussum svei! Það er svo ótrúlega dýrt fyrir sveitarfélögin að vera með svona lata kennara sem nenna ekki að vinna vinnuna sína. 

Takk fyrir að benda okkur á að það er nú helber óþarfi að vera með „einhverja“ undirbúningstíma eins og þú orðaðir það svo fagmannlega. Við ættum nú bara að geta staðið óundirbúin fyrir framan 25 manna hóp og talað í átta tíma á dag. Þú sýndir það og sannaðir með ræðu þinni að það er hægt að standa og tala fyrir framan nokkur hundruð manns alveg óundirbúinn og uppskera lófaklapp! 

Takk fyrir að sýna okkur hvað við erum í góðum höndum með yfirmann sem ber svona mikla virðingu fyrir og styður við bakið á undirmönnum sínum í kjarabaráttu þeirra. 

Takk fyrir að opna augu okkar kennaraletingjanna fyrir því að 690 þúsund króna laun (fyrir skatt) eftir fimm ára háskólanám eru fullboðleg fyrir svona lúxusjobb. Ég er sannfærð um að þessi ræða þín verði til þess að við kennarar, ef kennara skyldi kalla, girði sig nú í brók og hætti þessari heimtufrekju. Að nýútskrifaðir kennarar sem hafa farið til betur launaðra starfa sjái nú villu síns vegar og flykkist aftur inn í skólana.

Takk!

Höfundur er kennari í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×