Sérfræðingar spá því að verðbólgan verði komin niður í um fimm prósent í árslok en greiningardeild Íslandsbanka gaf það út í gær að gert væri ráð fyrir að stýrivextir yrðu 8,25 prósent um mitt næsta ár, 7,5 prósent í lok árs 2025 og 5,5 prósent í árslok 2026.
Stýrivextir eru í dag 9,25 prósent og hafa verið óbreyttir í meira en ár.
Á sama tíma hafa bankarnir hækkað vexti á verðtryggðum lánum.
Sjá má þáttinn í heild sinni í spilaranum að neðan.
Taumlaus græðgi, hveiti og brauð
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði á dögunum að hækkanirnar væru til marks um „taumlausa græðgi“ sem hefði fengið að viðgangast í fjármálakerfinu en þessu svaraði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, með því að útskýra að það væri ekki hægt að selja brauðið ódýrara en hveitið.
Húsnæðiseigendur sitja uppi með hærri afborganir og lán þar sem fastir vextir eru að losna, neytendur borga meira fyrir matarkörfuna og leigjendur sitja í súpunni á þröngum húsnæðismarkaði.
Til alls þessa var horft við gerð kjarasamninga fyrr á árinu, þar sem markmiðið var að stuðla að stöðugleika, auknum kaupmætti og lækkun vaxta og verðbólgu. Hvernig hefur ræst úr þeim fyrirheitum sem gefin voru? Og hvernig verður þróunin í vetur?
Þetta og fleira verður til umræðu í Pallborðinu klukkan 12.15 í dag. Stjórnandi er Hólmfríður Gísladóttir en gestir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Sigurður Ágúst Sigurðsson, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík.
Hægt er að hlusta á Pallborðið á öllum helstu hlaðvarpsveitum.