Skoðun

Látið sjóði verka­fólks vera

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar koma fram áform um að fella brott framlag til jöfnunar á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða: lækka það um 4,7 milljarða strax á næsta ári og afnema til fulls árið þar á eftir.

Fjárframlagið hefur verið veitt úr ríkissjóði frá 2007 og má rekja til kjarasamninga á almennum vinnumarkaði árið 2005, þegar verkalýðshreyfingin slakaði á launakröfum gegn því að ríkið stigi inn með aðgerðum til að jafna þann aðstöðumun sem lífeyrissjóðir búa við vegna misjafnrar tíðni örorku.

Það gefur auga leið að því meiri sem örorkutíðni er hjá lífeyrissjóði, því minni er geta sjóðsins til að standa undir lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga. Mest er örorkubyrðin hjá sjóðum verkafólks sem vinnur slítandi störf, en í dag renna meira en 60% jöfnunarframlagsins til sjóðanna Gildis, Festu og Stapa.

Gildi og Festa hafa varið framlaginu beint til aukinnar réttindaávinnslu um sem nemur 3,6% af iðgjöldum sjóðfélaga. Með algeru afnámi framlagsins mun réttindaávinnslan lækka sem þessu nemursem er bein árás á lífeyrisréttindi erfiðisvinnufólks og láglaunafólks. Við það verður ekki unað og um slíkt verður enginn friður á Alþingi. Samfylkingin starfar í þjónustu við vinnandi stéttir og mun standa fast gegn hvers kyns áhlaupi á sjóði verkafólks.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×