„Það má líta á þetta sem faraldur en við verðum líka að mæta þessu með jafnaðargeði og vera tilbúin að mæta þessu og verða með einhverjar lausnir,“ segir Grímur um vopnaburð ungmenna og aukið ofbeldi þeirra á meðal. Hann ræddi þessi mál í Brennslunni á FM957 fyrr í dag.
Hann segir alla verða að vera tilbúna til að takast á við þetta saman. Unglingana, foreldrana, skólasamfélagið og lögreglna.
„Að eyða þessum vágesti í samfélaginu.“
Grímur segir að undanfarin ár hafi verið aukning í hnífaburði. Það séu fleiri mál þar sem lögreglan finnur hnífa en það hafi ekki verið ástæða afskipta lögreglunnar.
„Við höfum haft áhyggjur af þessu og höfum bent á það. Þetta hljómar kannski einfalt þegar ég segi þetta, en ég heyri aðra segja þetta líka. Þetta er ákveðinn frasi en maður stingur engan ef maður er ekki með hníf.“
Grímur segir það þannig bestu forvörnin að vera ekki með hníf á sér. Hann segir ungmennin oft bera fyrir sig vopnaburð annarra þegar þau eru spurð hvers vegna þau séu með hníf. Ekki sé gott að segja hvort það tengist tölvuleikjum, samfélagsmiðlum eða öðru.
„En fólk allavega ákveður að vera með hnífa sér til varnar. Það er það sem flestir segja. Það er það sem við þurfum að tækla. Við eigum ekki að vera með hnífa okkur til varnar. Við verðum að leysa úr málunum öðruvísi. Vegna þess að hnífurinn er þannig apparat að hann getur verið þess valdandi að einhver lætur lífið. Það er það sem við þurfum að passa.“
Ætla að sekta fyrir vopnaburð
Hann segir ungt fólk ekki endilega gera sér grein fyrir áhrifunum. Auk þess sé ólöglegt að bera hníf og að lögreglan ætli sér að sekta fyrir það en í lögum er heimild til sekta auk þess sem vopnaburður geti haft í för með sér fangelsisdóm.
„Það er partur af lausninni þó að við verðum að átta okkur á því að við munum ekki vinna þetta „stríð“ með því að sekta fyrir vopnaburð. Það er ekki eina ráðið en við munum beita því líka.“
Grímur segir þörf á auknum forvörnum og lögreglan hafi unnið að því síðustu ár að auka samfélagslögreglu við bæði krakka og aðra samfélagshópa sem eiga ekki eins auðvelt með að fá samtal.
Auk þess sé jafningjaþrýstingur mikilvægur. Það skipti máli hvernig félagar manns taki því sem maður er að gera.
„Það er grundvallaratriði að taki ábyrgð og segi: „Ég ætla ekki með þér niður í bæ ef þú ert með hníf“. Vegna þess að það er hættulegt og ólöglegt.“
Ekki einkamál lögreglu
Grímur segir þetta ekki einkamál lögreglunnar. Það þurfi fleiri að koma að eins og heimilin, skólarnir og félagsmiðstöðvar. Samfélagið allt þurfi að vera vakandi við því hvað börn eru að gera, hvern þau eiga í samskiptum við og hvernig þau fari fram.
Grímur tekur dæmi um slagsmál ungmenna. Þau séu að hittast á skipulögðum hittingum þar sem þau sláist og það sé tekið upp og svo dreift á samfélagsmiðla.
„Það er einhver sem er niðurlægður. Þetta er eitthvað sem krakkar hafi verið að gera og við höfum verið að reyna að taka á. Þetta minnkaði en þetta er ákaflega leiðinlegur og ljótur siður,“ segir Grímur og að foreldrar og aðrir þurfi að geta leiðbeint börnum í gegnum til dæmis þetta.
Hann segir lögregluna munu taka þátt í þjóðarátaki sem stjórnvöld hafi boðið um þessi mál en að það þurfi allir að taka þátt.