Erlent

Eldunarolía og elds­neyti flutt í sömu tankbifreiðunum án þrifa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Málið er sagt hafa vakið mikla reiði í Kína.
Málið er sagt hafa vakið mikla reiði í Kína. Getty

Mikil reiði er sögð hafa brotist út í Kína eftir að greint var frá því að stórfyrirtæki hefðu brotið lög og reglur með því að flytja olíu til eldunar og eldsneyti í sömu tankbifreiðunum, án þess að þrífa þær á milli.

Um er að ræða fyrirtækin Sinograin og Hopefull Grain and Oil Group.

Miðillinn Beijing News greindi frá því í síðustu viku að það væri „opið leyndarmál“ að bílarnir flyttu bæði eldsneyti og önnur efni annars vegar og ætan vökva á borð við olíu og sýróp hins vegar, án þess að tankarnir væru hreinsaðir á milli.

Matvælaeftirlitsstofnun ríkisráðsins tilkynnti á þriðjudag að rannsókn yrði hafin á málinu og sekum refsað samkvæmt lögum. Talsmenn ofannefndra fyrirtækja hafa einnig sagt rannsóknir hafnar á ásökununum en virðast ætla að leggja ábyrgðina á herðar flutningafyrirtækjanna sem starfa fyrir þau.

Málið hefur orðið til þess að stórfyrirtæki í matvælaframleiðslu hafa séð sig knúin til að stíga fram og neita því að nota eldsneytisflutningabifreiðar til að flytja matvöru.

Xi Jinping, forseti Kína, hefur lagt mikla áherslu á matvælaöryggi og öryggi matvæla og ríkismiðlar hafa verið afar gagnrýnir í umfjöllun sinni um hneykslið. Framganga fyrirtækjana jafngildi því að eitrað hafi verið fyrir neytendum og engin virðing borin fyrir lífi þeirra né heilsu.

Hér má finna ítarlega umfjöllun CNN um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×