Erlent

Segja nýjar reglur um merkingar blekkingar­leik lax­eldis­fyrir­tækja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um það bil 200 matreiðslumenn styðja átak sem miðar að því að fá veitingahús í Skotlandi til að taka eldislax af matseðlinum.
Um það bil 200 matreiðslumenn styðja átak sem miðar að því að fá veitingahús í Skotlandi til að taka eldislax af matseðlinum. Getty/Justin Sullivan

Aðgerðasinnar í Skotlandi mótmæla nú harðlega ákvörðun yfirvalda um að heimila fyrirtækjum í laxeldi að hætta að merkja vörur sínar sem „eldislax“.

Fyrirtækin fengu breytinguna í gegn á þeim forsendum að neytendur væru meðvitaðir um að villtur lax væri ekki lengur seldur í verslunum og þannig hlyti varan sem þeir væru að kaupa að vera eldislax.

Dýraverndarsamtök og matreiðslumenn segja hins vegar um að ræða grænþvott og tilraunir til að villa um fyrir neytendum. Hópur samtaka hefur höfðað mál til að fá ákvörðuninni hnekkt.

„Nú, meira en áður, þarf fólk að fá upplýsingar um raunverulegan uppruna þeirra vara sem þeir kaupa og neyta, svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun. Þessi nafnabreyting er skref í vitlausa átt,“ segir Rachel Mulrenan  hjá WildFish.

Breytingin varðar merkingar framan á umbúðum en fyrirtækjum er ennþá skylt að taka það fram aftan á umbúðunum að um sé að ræða eldislax.

Þegar ákvörðunin var tekin sögðu samtökin Salmon Scotland að þegar neytendur töluðu um skoskan lax væru þeir að tala um eldislax frá Skotlandi og breytingin endurspeglaði það.

Abigail Penny, framkvæmdastjóri Animal Equality UK, sagði hins vegar um að ræða tilraun til að fela ljótan sannleikann; að um væri að ræða starfsemi þar sem lús og sjúkdómar væru normið og milljónir laxa dræpust á hverju ári.

Laxeldi er afar umdeilt á Skotlandi, líkt og á Íslandi. Yfir 60 samtök og 200 matreiðslumenn hafa lýst yfir stuðningi við baráttu WildFish fyrir því að veitingastaðir hætti að bjóða upp á eldislax á matseðlum sínum.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×