Sigurður Ingi Jóhannsson segir ríkissjóð verða rekinn með halla allt til ársins 2028. Áætlunum um viðbyggingu við stjórnarráðshúsið og bygging nýrrar neyðarmiðstöðvar er frestað um fimm ár. Boðaðar aðhaldsaðgerðir nema rétt rúmlega einu prósenti af tekjum ríkisins.

Er hægt að kalla það mjög metnaðarfullar aðgerðir?
„Já, ég held að þær séu það. Við höfum sýnt það á liðnum árum að það aðhald sem við höfum haft hefur haft þær afleiðingar að styðja við peningastefnu Seðlabankans,“ segir Sigurður Ingi. Útgjöld ríkisins muni vaxa a næstu árum.
„En þau vaxa með hófsömum hætti af því að við teljum að það sé skynsamlega leiðin. Þannig aðskuldahlutfallið fer lækkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á sama tíma,“ segir fjármálaráðherra.
Ríkisstjórnir fara oft á kosningafyllerí síðasta vetur fyrir kosningar. Þarf að passa sig á því næsta vetur?
„Það er engin hætta á því. Við erum hér að leggja áherslu á ábyrga fjármálaáætlun og ábyrg fjármál. Ég hef enga trú á öðru en það gangi eftir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.
Í spilaranum hér að neðan má sjá fréttina ásamt viðtali við þau Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, og Andrés Inga Jónsson, þingmann Pírata, um fjármálaáætlun, söluna á Íslandsbanka og vantrauststillögu þingflokka Pírata og Flokks fólksins.