Leipzig hafði unnið þrjá leiki í röð en Eisenach er í bullandi fallbaráttu og hafði aðeins náð einu jafntefli í síðustu sex leikjum fyrir viðureign liðanna í dag.
Leipzig hafði yfirhöndina fram af leiknum og náði upp fimm marka forskoti tvisvar í seinni hálfleik. En á um það bil fjórum mínútum skoraði Eisenach fjögur mörg og staðan breyttist úr 21-16 í 21-20. Skömmu síðar kom svo annar stórskotakafli frá gestunum og staðan allt í einu orðin 25-28 og aðeins sjö mínútur tæpar til leiksloka.
Andri Már Rúnarsson gerði hvað hann gat til að klóra í bakkann og skoraði tvö mörk á lokakaflanum en það dugði ekki til, lokatölur í Leipzig 29-31 og kærkomin stig í hús hjá Eisenach.
Andri Már skoraði fjögur mörk fyrir Leipzig en Viggó Kristjánsson tók ekki þátt í leiknum.
Fleiri Íslendingar stóðu í ströngu í þýska boltanum í dag. Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach tóku á móti TVB Stuttgart og unnu nokkuð þægilegan sigur 35-27. Aron Snær Óskarsson skoraði eitt mark fyrir Gummersbach.

Þá var Oddur Grétarsson í stóru hlutverki hjá HBW Balingen sem sótti topplið Füchse Berlin heim. Oddur raðaði inn mörkum í lokin og gerði sitt besta til að jafna leikinn en hinn danski Hans Lindberg svaraði öllu sem Oddur reyndi og skoraði sex af síðustu sjö mörkum Füchse Berlin.
Oddur var markahæstur sinna manna í dag með átta mörk. Daníel Þór Ingason skoraði tvö og lagði upp annað eins. Balingen er í neðsta sæti deildarinnar og var þetta fjórða tap liðsins í röð.