Mál Davíðs Viðarssonar, athafnamanns sem nú situr í gæsluvarðhaldi grunaður um mansal og fleiri brot hefur vakið mikla athygli og sér í lagi spurningar um eftirlit með veitingastöðum og annarri starfsemi hér á landi.
Veitingastaður sem Davíð á fékk falleinkunn frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fyrir ólöglega geymslu á matvælum en rottuskítur og mikil óhreinindi fundust í húsnæði á vegum fyrirtækisins.
Broskarlakerfi
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna kallar eftir því að úttektir heilbrigðiseftirlita verði aðgengilegri almenningi með það að markmiði að neytendur fái upplýsingar um hversu vel veitingastaður fylgir lögum og reglum og uppfylli skilyrði sem eftirlitsaðilar um matvælaöryggi setja.
Mikilvægt sé að upplýsingarnar sem birtar skuli almenningi séu einfaldar, aðgengilegar og skýrar.

„Frá árinu 2012 höfum við barist fyrir því að tekið verði upp svokallað broskallakerfi hér á Íslandi eins og er á hinum Norðurlöndunum. Það er að segja að þegar eftirlit komi í heimsókn sé gefin ákveðin einkunn eins og gert er en líka að við innganga á öllum veitingahúsum sé settur broskarl, annað hvort glaður eða súr karl. Fer eftir einkunninni.“
Neytendur eigi rétt á upplýsingum um skussa
Sambærilegt kerfi var tekið upp í Danmörku um aldamótin við góðan orðstír að sögn Breka.
„Þetta kemur sér bara illa fyrir þá sem eru ekki að standa sig. Það er náttúrulega mikill meirihluti veitingahúsa sem eru að gera vel og auðvitað á að umbuna þeim. Það eru einungis örfáir skussar og auðvitað eiga neytendur rétt á því að vita hverjir þeir eru.“
Einföld ákvörðun
Um stórt neytendamál sé að ræða enda segir Breki að slík birting upplýsinga verði til þess að forsvarsmenn veitingastaða standi sig betur og matvælaöryggi eykst.
Hvers vegna hefur svona fyrirkomulag ekki verið tekið upp hér á landi?
„Ég veit það ekki. Þetta er eins og svo margt annað bara ákvörðun sem þarf að taka. Þetta er ekki mikið eða stórt mál fyrir eftirlitið, það kemur hvort eð er á staðinn og tekur út veitingastaðina. Eini munurinn er að í lok ferðar er prentaður út broskarl eða súrkarl.“