Alexei Navalní lést í fangelsi í Síberíu fyrr í þessum mánuði. Um árabil var hann helsti andstæðingur forseta Rússlands, Vladimír Pútín. Eiginkona Navalní hefur kennt Pútín um dauða hans. Greint var frá því í gær að samkomulag um fangaskipti hafi verið á lokametrunum og hann nálægt því að verða frjáls maður þegar hann lést þann 16. febrúar.
Búið er að setja upp girðingar í kringum kirkjuna svo þeir sem mættir eru til að votta Navalní virðingu sína trufli ekki athöfnina. Vestrænir sendiherrar og fleiri starfsmenn sendiráðanna eru mættir ásamt fjölmörgum Rússum sem studdu Navalní í baráttu sinni.

Klappað var fyrir Navalní þegar kistan var borin inn í kirkjuna en það hafði tekið lengri tíma en ætlað var að ferja hana í kirkjuna. Illa gekk að finna líkbíl til að keyra með kistuna þangað.

Athöfnin átti að hefjast klukkan ellefu á íslenskum tíma og kistan síðan grafin klukkan eitt. Ljóst er að þær tímasetningar munu ekki halda og ætti athöfnin að byrja rétt eftir klukkan hálf tólf.

