Slippfélagið, Pizzan, Curvy og Stout voru með starsemi í húsinu, en bílaþjónusta og hjólbarðaverkstæði N1 varð hvað verst úti í eldinum.
„Það er grunað að það hafi verið einhver rafmagns- eða geislahitari sem var inni á einhverri skrifstofu eða herbergi,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi í samtali við fréttastofu. Hann segir að hitarinn hafi líklega bilað og eldur kviknað út frá honum.


„Þetta er svona rafmagnshitari sem er notaður þegar kalt er úti. Ég veit ekki hvað þeir voru að hita þarna, en það er auðvitað oft kalt á þessum smurstöðum. Allt opið og svoleiðis. Eldurinn náði síðan í húsgögn, svo einhverja dekkjasamstæðu og svo koll af kolli,“ segir Guðmundur.
Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöðu tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Það eru allar líkur á að þetta sé málið.“
Í kjölfar brunans sendi N1 frá sér tilkynningu þar sem að sagði að sjálfvirkur brunaboði í húsnæðinu hefði gert stjórnstöð Securitas viðvart um reyk stuttu eftir að húsinu hafði verið lokað.
Starfsmaður, sem hafði nýlega yfirgefið vinnustaðinn, sneri aftur á vettvang og hringdi strax á neyðarlínuna og í kjölfarið kom slökkviliðið og lögregla á vettvang.