Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um þessar nýjustu vendingar í loðnuleitinni. Það sem kveikt hefur vonarneistann er það sem skipstjórar þriggja uppsjávarveiðiskipa sáu á svæðinu undan Suðausturlandi þegar þau voru á leið til Austfjarðahafna af kolmunnaveiðum sunnan Færeyja.

Skipstjórinn á Svani RE sá fyrstur lóðningarnar í gær á syðri hluta Rauðatorgsins. Þegar fréttastofa talaði við hann í dag var hann nokkuð viss um að þetta væri loðna. Í gærkvöldi fóru svo Hákon EA og Hoffell SU yfir svæðið og sáu bæði skipin torfur á Rósagarðinum en tólf mílur voru á milli skipanna.
Það vildi svo til að Bjarni Sæmundsson var við umhverfisrannsóknir undan Austfjörðum og ákváð Hafrannsóknastofnun strax í gærkvöldi að senda hann á þessar slóðir til að kanna þetta betur. Einnig var grænlenska skipinu Polar Ammassak, sem var við loðnuleit út af Vestfjörðum, snúið til Austfjarða, en hér má fylgjast með siglingarferlum skipanna.

Bæði skipin verða væntanlega komin á Rósagarðinn síðar kvöld og geta þá staðfest hvort þarna sé loðna á ferðinni. Þau munu síðan taka 1-2 daga í að mæla hvað þetta er mikið og Hafrannsóknastofnun síðan gefa út, sennilega öðru hvoru megin við helgina, hvort þetta sé nóg til að standa undir veiðum.
Margir bíða spenntir eftir niðurstöðinni, ekki síst í loðnubæjunum, en loðnuvinnslur eru núna á níu stöðum á landinu. Í öllum þessum byggðum eru menn sagðir í startholunum, tilbúnir að hefja loðnuvertíð. Ef grænt ljós verður gefið á veiðar þá gætu orðið uppgrip í þessum bæjum næstu fjórar til fimm vikur og peningarnir flætt inn í byggðarlögin.

En þetta gæti líka farið á hinn veginn; enginn kvóti, ekkert loðnuævintýri, og þá verður vistin dauflegri.
Ef staðfesting fæst á því að stór loðnuganga sé þarna á ferðinni undan Suðausturlandi má segja að hún sé á hefðbundinni gönguslóð, þó ef til vill heldur fjær landinu en oft áður. Fylgi loðnan sínu venjulega göngumynstri má gera ráð fyrir að hún muni fljótlega ganga upp að suðausturströndinni, þéttast þar, og synda síðan vestur með suðurströndinni, út fyrir Reykjanes, inn á Faxaflóa og jafnvel norður fyrir Snæfellsnes áður en hún hrygnir og drepst.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: