Morgunblaðið greinir frá því að ríkisslögreglustjóri hafi sent rannsókn og meðferð á atviki þar sem mótmælandi, hliðhollur Palestínu, kastaði glimmeri yfir Bjarna á hátíðarfundi í Veröld, húsi Vigdísar, til héraðssaksóknara. Til stóð að fundurinn yrði haldinn í tilefni 75 ára afmælis Mannréttindayfirlýsingarinnar en honum var aflýst í kjölfar atviksins.
Vitnað er í Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, sem segir málið varða 106. og 122. grein hegningarlaga. Þau lög snúa að brotum gegn valdstjórninni eða að brotum á almannafriði og allsherjarreglu sem geta varðað tveggja til sex ára fangelsisvist.
Sagði um jólakveðju að ræða
Mótmælandinn sem um ræðir heitir Katrín Harðardóttir. Í samtali við Vísi í síðustu viku sagði hún að um jólakveðju hefði verið að ræða. Hún hafi helt úr þremur glimmerstaukum yfir Bjarna sem verið hinn rólegasti á meðan en beðið hana að hætta þegar komið var að þeim þriðja.
„Manni ofbýður aðgerðarleysi stjórnvalda og það er það eina sem drífur mann í svona beina aðgerð. Ég er rosa fegin að hafa getað óskað honum gleðilegra jóla,“ sagði Katrín.
Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.
Karl Steinar sagði í kjölfar atviksins að það væri eitthvað sem ekki væri hægt að sætta sig við, og að það hefði áhrif á hvernig öryggisgæslu ráðherra er háttað.