„Ég held að þetta sé byrjunin á margra ára ferli af jarðskorpuhreyfingum. Allavega áratuga, myndi ég giska á,“ segir Haraldur í viðtali við fréttastofuna um umbrotin á Reykjanesskaga.

Hann spáir því að fleiri svæði á Reykjanesfjallgarðinum verði virk, allt til Hengils. Hann nefnir sérstaklega Krýsuvík, sem hann segir töluverða eldstöð.
„Það má ekki gleyma því að sprungukerfið frá Krýsuvík, það liggur upp í Heiðmörk. Og svo heldurðu áfram til austurs, þá ertu kominn undir Morgunblaðshúsið. Þar eru sprungur alveg í hring, rétt þar hjá.
Þetta getur verið virkt svæði, alveg upp í Heiðmörk. Það þarf virkilega að fylgjast vel með því. Svo að höfuðborgarsvæðið, það er viss hætta þar,“ segir eldfjallafræðingurinn og minnir á að þar hafa hraun runnið.

-Þannig að það er alveg hugsanlegur möguleiki að það komi kvika í sprungu sem liggur undir Hádegismóa?
„Já, já. Ég tel það.
Það þarf virkilega að kanna það og gera áhættumat á því svæði, öllu svæðinu sem snertir Heiðmörkina.“
-En hvað með Hafnarfjörð og hugmyndir um að byggja flugvöll í Hvassahrauni? Eða Voga á Vatnsleysuströnd og nýbyggingarhverfi í Grindavík? Þarf að endurskoða byggingaráform á svæðum sem þessum?
„Já, það er nauðsynlegt að taka sterklega til greina alla áhættuna sem getur stafað af jarðskorpuhreyfingum á þessum svæðum. Og hugsanlegu hraunrennsli. En fyrst og fremst jarðskorpuhreyfingum,“ svarar Haraldur Sigurðsson.
Hér má sjá Harald ræða um hættuna gagnvart höfuðborgarsvæðinu:
Viðtalið við Harald í heild má sjá hér:
Fjallað var um æviferil Haraldar í þættinum Um land allt fyrir átta árum: