Plast er algjört undraefni. Það framlengir líftíma matvæla og er nauðsynlegt í heilbrigðisþjónustu og ýmsum iðnaði. En plast á sínar skuggahliðar. Við notum allt of mikið af því og framleiðendur mættu leggja sig betur fram við að framleiða og setja á markað plast sem er auðveldara að endurvinna. Plast hverfur ekki eða eyðist við náttúrulegt niðurbrot, heldur brotnar það niður í smærri hluta og verður að endingu að örplasti. Margar gerðir plasts eru ágætis endurvinnsluefni og vel er hægt að hækka endurvinnsluhlutfallið með markvissri flokkun.

Almenningur og fyrirtæki flokka umbúðaplast í sérstakar tunnur við húsvegg og á grenndarstöðvum. Árlega sendir SORPA um tvö þúsund tonn af plasti til frekari flokkunar og endurvinnslu og endurnýtingu í Evrópu. Það plast sem ekki er hægt að endurvinna fer í brennslu til orkuframleiðslu. Eins og hvert mannsbarn veit eftir að hafa lesið þessa greinaröð okkar upp til agna þá er endurvinnsla betri meðhöndlun en orkuvinnsla, og orkuvinnsla er skárri meðhöndlun en urðun.
Plast er hins vegar ekki allt skapað jafnt. Sumt plast er betra en annað til endurvinnslu. Þumalputtareglan er að því einsleitari sem plaststraumur er, þeim mun auðveldara er að endurvinna plastið. Blöndun á mismunandi plasti leiðir því til lægra endurvinnsluhlutfalls og meira magn fer til orkuvinnslu. Og blöndun á plasti við önnur efni, til dæmis pappír eða málma, þýðir að endurvinnsluaðilar geta yfirleitt bara unnið einn efnisstraum. Því getur SORPA ekki breytt og því getur almenningur ekki breytt. En því geta vöruhönnuðir, framleiðendur, innflytjendur og markaðsaðilar breytt. Við köllum því eftir betra plasti á markað sem er auðveldara að endurvinna.
Fjórir flokkar af plasti á endurvinnslustöðvum
Til að auka endurvinnslumöguleika plasts er plast nú líka flokkað í fjóra flokka á endurvinnslustöðvum SORPU. Það er ástæða fyrir því, við sitjum ekki allan daginn og reynum að fá hugmyndir til að flækja líf fólks að óþörfu. Ekki allan daginn.
Flokkarnir eru: plastumbúðir (sama plast og má fara í tunnuna heima og á grenndarstöðvar), frauðplast, filmuplast og hart plast. Hver þessara plaststrauma þarf sértæka vinnslu hjá móttökuaðila. Með þessari flokkun er auðveldara fyrir móttökuaðila okkar að endurvinna plastið og hefur þessi fjórflokkun skilað sér í að umtalsvert meira af því plasti sem fólk hendir hjá SORPU er endurunnið, og minna er brennt til orkuvinnslu.
Frauðplast er í þessu samhengi sérstaklega áhugavert. Með frauðplasti meinum við plastið sem er til dæmis utan um raftækin sem þú kaupir, en ekki bakkinn undan fiskinum. Bakkinn má fara í tunnuna heima, en við viljum alls ekki fá frauðplastið utan af raftækjunum í hana. Ef frauðplast blandast öðru plasti – sem allir sem hafa snert frauðplast vita að það gerist um leið og það molnar – þá rýrir það endurvinnslumöguleika annars plasts. Ef það er hins vegar flokkað frá er hægt að endurvinna það með tiltölulega góðum árangri, jafnvel allt að 80-90%.
Þetta var plastið þitt. Í næstu viku ætlum við að segja þér hvað verður um það sem þú setur í nytjagáminn og er selt í Góða hirðinum.