Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag leitað að byssumanni eftir að maður var skotinn fyrir utan fjölbýlishús í Silfratjörn í Úlfarsárdal í Reykjavík í nótt. Mörg börn vöknuðu upp við skothvelli í nótt og var lögregla með töluverðan viðbúnað á vettvangi.
Líðan þess sem varð fyrir skoti er eftir atvikum góð, að sögn Gríms Grímssonar, hjá miðlægri deild lögreglunnar. Hann segir manninn ekki í lífshættu en vill ekki svara því hvar skotið hæfði hann.
Aðspurður um hvort íbúar í hverfinu eða í öðrum hverfum ætti að gera ráðstafanir eða vera varir um sig, segist Grímur ekki telja að almenningi sé mikil hætta búin. Talið er að árásin tengist deilum innan tveggja hópa.
„Hins vegar er það svo að lögregla er með aukinn viðbúnað vegna þess að einstaklingur gengur laus sem hefur hleypt af skoti inni í íbúðarhverfi. Það er ekki hægt að útiloka að saklausir borgarar geti orðið fórnarlömb í slíkum aðstæðum.“
Ákveðin hætta á ferð meðan maðurinn gengur laus
Teljið þið að aðrir gætu verið í hættu?
„Það er sama svar. Það er ákveðin hætta á meðan þessi maður hefur ekki verið handtekinn.“
Grímur segir málið tekið mjög alvarlega og allt kapp sé lagt á að finna manninn sem fyrst. Hann vill ekki gefa upp hvort lögregla leiti að einhverjum sérstökum en segir að ekki standi til að lýsa eftir neinum.