Síðasta tilraunin til að skjóta gervihnetti á loft frá Norður-Kóreu misheppnaðist í ágúst. Þá lýstu yfirvöld ríkisins því yfir að aftur yrði reynt í október en ekkert varð af því. Nú segja ráðamenn í Suður-Kóreu að lokaundirbúningur fyrir nýtt geimskot eigi sér nú stað.
Í frétt Yonhap fréttaveitunnar segir að talið sé að verið sé að gera lokakönnun á eldflaugum og hreyflum sem nota á við geimskotið, samkvæmt yfirmönnum Leyniþjónustu Suður-Kóreu, sem fræddu þingmenn um stöðuna á dögunum.
Þá segir í fréttinni að talið sé að geimvísindamenn Norður-Kóreu hafi fengið tæknilega aðstoð við þróun gervihnatta og því séu meiri líkur á því að þetta geimskot heppnist. Talið er að þessi aðstoð sé liður í samkomulagi sem Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, gerði við Valdimír Pútín, einræðisherra Rússlands, þegar sá fyrrnefndi fór til Rússlands fyrr á árinu.
Þessa aðstoð fá Kóreumenn í skiptum fyrir gífurlega mikið af sprengikúlum fyrir stórskotalið sem sendar hafa verið til Rússlands frá Norður-Kóreu. Yfirvöld í Suður-Kóreu áætla að Norður-Kóreumenn hafi sent meira en milljón sprengikúlur til Rússlands í um það bil tíu sendingum.
Það samsvarar um tveggja mánaða notkun Rússa í Úkraínu en Norður-Kórea sendi einnig stórskotaliðsvopn og önnur hergögn til Rússlands. Þetta mun líklega veita Rússum ákveðið forskot gegn Úkraínumönnum, þar sem stórskotalið skiptir sköpum í stíðinu þar.
Kim Jong Un hefur lengi viljað koma njósnagervihnetti á braut um jörðu. Talið er að þetta sé liður í eldflauga- og kjarnorkuvopnaætlunum Norður-Kóreu, þar sem unnið hefur verið að þróun langdrægra eldflauga um árabil. Þessar eldflaugar eiga að geta borið kjarnorkuvopn til Bandaríkjanna.
Þróun bæði eldflauganna og kjarnorkuvopnanna eru í trássi við samþykktir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Áðurnefndum þingmönnum í Suður-Kóreu var þó tilkynnt í vikunni að Norður-Kóreumenn hafi enn ekki náð tökum á tækninni sem þarf til að minnka kjarnorkuvopn svo þau komist fyrir í umræddum eldflaugum og herða þau, svo vopnin þoli hitann, titringinn og annað við endurkomu í gufuhvolf jarðarinnar.