Erlent

Fleiri en þúsund látnir vegna gífur­legra flóða

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikil flóð hafa valdið gífulegum skemmdum og fjölda dauðsfalla í Suðaustur-Asíu síðustu daga.
Mikil flóð hafa valdið gífulegum skemmdum og fjölda dauðsfalla í Suðaustur-Asíu síðustu daga. AP/Binsar Bakkara

Að minnsta kosti 604 eru látnir eftir mikil flóð á Indónesíu og að minnsta kosti 464 er enn saknað. Í heildina er vitað til þess að rúmlega þúsund manns hafi dáið vegna flóða í þremur löndum í Suðaustur-Asíu og er rúmlega átta hundruð saknað.

Innviðir á Indónesíu urðu fyrir miklum skemmdum og hafa björgunarsveitir ekki enn náð til svæða sem talið er að hafi orðið illa úti. Er það meðal annars vegna mikið skemmdra vega og annarra innviða, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Prabowo Subianto, forseti Indónesíu, sagði blaðamönnum í dag að taka þyrfti betur á veðurfarsbreytingum, sem spila rullu í því að gera hamfarir sem þessar verri en ella.

Hann sagði að grípa þyrfti til aðgerða til að vernda umhverfið en í senn bæta varnir vegna frekari veðurhamfara í framtíðinni sem rekja megi til veðurfarsbreytinga.

Á Sri Lanka eru að minnsta kosti 366 látnir og að minnsta kosti 367 er saknað. Um 218 þúsund manns halda til í neyðarskýlum eftir rigninguna og flóðin.

Í Taílandi eru að minnsta kosti 176 látnir. Flóðin þar höfðu mikil áhrif á byggðir í sunnanverðu landinu. Áætlað er að um 3,9 milljónir manna hafi orðið fyrir áhrifum og hafa margir ekki aðgang að hreinu vatni eða rafmagni.

Í frétt BBC segir að veðurhamfarirnar hafi komið til vegna nokkurra þátta. Monsúnvindar sem flytja rakt loft til Suðaustur-Asíu hafi þar spilað inn í auk óveðursins Senyar. Því óveðri hefur fylgt gífurleg rigning og í einhverjum tilfellum hefur hún mælst hálfur metri á nokkrum dögum.


Tengdar fréttir

Tæp­lega tvö hundruð látnir eftir hamfaraveður

Að minnsta kosti 193 eru látnir eftir einar verstu veðurhamfarir síðustu ára í Srí Lanka eftir að hvirfilbylurinn Ditwah reið yfir landið. Yfir hundrað þúsund manns þurftu að yfirgefa heimili sín.

Tugir látnir eftir flóð í Taílandi og Indónesíu

Að minnsta kosti 145 eru látnir eftir mikil flóð í suðurhluta Taílands. Dregið hefur úr flóðunum og eru gífurlegar skemmdir að líta dagsins ljós. Áætlað er að flóðin hafi haft áhrif á um 1,2 milljónir heimila og um 3,6 milljónir manna í tólf héruðum Taílands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×